140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:47]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það gæti verið ágætisviðfangsefni fyrir þá þingnefnd sem fær málið til meðhöndlunar að fara í eins konar lúsaleit og kanna hvort einhvers staðar finnist stuðningur við stofnun atvinnuvegaráðuneytis. Við vitum að hann finnst ekki meðal þeirra sem við eiga að búa, ekki hjá atvinnulífinu. Það liggur fyrir að sjávarútvegurinn eins og hann leggur sig leggst gegn málinu. Landbúnaðurinn hefur árum saman varað við þeim hugmyndum sem ganga þarna aftur og nú hefur fyrrverandi formaður Samtaka iðnrekenda lýsir yfir mikilli andstöðu við málið eftir að hafa fengið reynslu af samstarfi við ríkisstjórnina. Hann komst að þeirri niðurstöðu að það væri mjög óheppilegt fyrir iðnaðinn sem hafði þó á sínum tíma talað fyrir því að skynsamlegt væri að setja þetta ráðuneyti á laggirnar.

Þá getum við að fara að skoða um borð og bekki í ríkisstjórnarliðinu. Hvað finnum við þar? Það eru tveir þingmenn sem ég hef tekið eftir úr stjórnarliðinu sem tekið hafa til máls um þetta. Báðir hafa lýst andstöðu við málið. Á ráðherrabekkjunum sitja hinir áhugasömu um málið en hvað með aðra hv. þingmenn? Hafa þeir sýnt málinu áhuga? Hafa þeir komið fram og sagt okkur að þetta sé hluti af þeim mikilvægu lýðræðisumbótum sem hæstv. forsætisráðherra er alltaf að segja okkur frá? Er þetta ekki eitt af stóru málunum sem ná átti fram í stjórnarsamstarfinu, þ.e. að koma á þessari breytingu á Stjórnarráðinu? Og hvar er áhuginn? Sjáum við hann hér inni? Nei, við sjáum hann nefnilega ekki hér inni. Höfum við heyrt það í umræðunum í gær og í dag? Ekki aldeilis.

Hæstv. forsætisráðherra og hæstv. sjávarútvegs-, landbúnaðar-, efnahags- og viðskiptaráðherra og hvað hann nú er og hæstv. umhverfisráðherra eru þau einu sem talað hafa fyrir málinu og þau hafa aldrei, ekki í eitt einasta skipti í ræðum sínum látið svo lítið að segja okkur frá því hvað býr hér að baki, hvað þessi þingsályktunartillaga felur í raun í sér.

Ég kallaði eftir því (Forseti hringir.) í ræðustól Alþingis í gær og var ekki virtur ekki viðlits af hálfu hæstvirtra ráðherra. (Forseti hringir.) Þannig iðka þeir lýðræðislega umræðu.