140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[15:50]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef líkt og hv. þingmaður fylgst með allri umræðunni frá því að hún hófst í gær, ég hlustaði á hæstv. forsætisráðherra mæla fyrir þingsályktunartillögunni, ég hlustaði á ræður þeirra hv. þingmanna sem hafa tjáð sig um málið, ég hlustaði á ræðu hæstv. umhverfisráðherra sem tjáði sig um málið og það er alveg ljóst að sú þingsályktunartillaga sem liggur fyrir er á engan hátt rökstudd. Þetta eru mest einhverjar óskhyggjuyfirlýsingar hæstv. forsætisráðherra um það hvernig fyrirheitna landið eigi að líta út. Hins vegar stendur ekkert um hvernig eigi að ná því fram eða hverju þær ráðuneytisbreytingar sem gerðar hafa verið hafa skilað. Við höfum fengið sex frumvörp um breytingar á Stjórnarráðinu. Það væri nær ef krafturinn færi í önnur og mikilvægari verkefni.

Ég hef tekið eftir því líkt og hv. þingmaður að svo virðist vera að einungis ráðherrar ríkisstjórnarinnar tali fyrir þessu máli. Ég hef heyrt að stuðningurinn við málið komi aðeins frá ráðherrabekknum og þegar hæstv. ráðherrar koma í ræðustól eru spurðir um málið fýkur yfirleitt í þá og þeir hreyta einhverju út úr sér, tala um að þetta sé bull og vitleysa, þetta sé rugl, eins og hæstv. ráðherra Steingrímur J. Sigfússon gerði í gær og fleiri ráðherrar hafa gert.

Þá vaknar auðvitað sú spurning hvort það sé að verða staðreynd að ríkisstjórnin sé ekki aðeins orðin einangruð frá þjóðinni heldur líka á þinginu. Þeir átta sig ekki á því að þjóðin vill sjá aðra forgangsröðun, hún vill sjá önnur mál í frontinum en gæluverkefni hæstv. (Forseti hringir.) forsætisráðherra sem enginn stuðningur er við, hvorki hér í þinginu (Forseti hringir.) né úti í þjóðfélaginu.