140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Hann bendir á hið augljósa og bendir á viðtal við Rögnu Árnadóttur sem var ráðherra, reyndar langvinsælasti ráðherra í þessari ríkisstjórn og af ástæðu (Gripið fram í: … látin fara.) — og var þess vegna látin fara. Einnig hefur hún verið ráðuneytisstjóri lengi og þekkir þessi mál mjög vel og benti á hið augljósa. Það er augljóst að ef við stækkum ráðuneytin mun yfirsýn ráðherranna minnka. Og það tekur tíma fyrir hvaða ráðherra sem er eða hvaða einstakling sem er að setja sig inn í málaflokkinn.

Ef menn vantar dæmi um það vek ég athygli á því að við erum hér með hæstv. ráðherra sem er með allra handa ráðuneyti og hæstv. ráðherra heitir Steingrímur J. Sigfússon. Hann er fyrrverandi hæstv. fjármálaráðherra og svarar reglulega fyrir það ráðuneyti. (Gripið fram í: Alltaf.) Hvað segir það okkur? Það segir okkur það væntanlega að nýi hæstv. fjármálaráðherrann er ekki búin að setja sig inn í þau mál og segir okkur ýmislegt annað sem ég ætla ekki að fara yfir hér. En ekki eru einu sinni gerðar athugasemdir við það að hann tali hér fyrir hönd ríkisstjórnarinnar um ríkisfjármálin og það sem snýr að fyrra embætti hans.

Hugmyndin er í grófum dráttum þessi með lýðræðisskipulaginu sem við erum með og þær þjóðir sem við berum okkur saman við: Við kjósum á ákveðnum árafresti og síðan erum við með stjórnkerfi sem sér til þess að unnið sé faglega úr hlutum og ekki verði kollsteypur eða neitt slíkt þó að nýjar ríkisstjórnir komi eða nýir aðilar komist að. Það er ekki þannig, virðulegi forseti, að hugsunin sé sú að það sé alveg sama hver sé kosinn, að ekki verði neinar breytingar vegna þess að embættismennirnir ráði öllu. En það er sú leið sem við erum að fara með þessum hringlandahætti og því að koma á fót þessum risaráðuneytum.