140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:04]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér inn á þætti sem skýra kannski þetta mál. Það er náttúrlega augljóst að hv. þm. Jón Bjarnason og hv. þm. Árni Páll Árnason voru látnir víkja úr ríkisstjórninni, ekki af einhverjum málefnalegum forsendum, það var bara vegna þess að þeir voru fyrir, hv. þm. Jón Bjarnason þegar kemur að ESB-málinu og hv. þm. Árni Páll Árnason hefur augljóslega verið fyrir, m.a. þeim hugmyndum — sem engin fagleg rök eru fyrir — að koma bönkunum inn í atvinnuvegaráðuneytið og brjóta upp og skilja á milli FME og Seðlabankans. Ég vek athygli á því að hæstv. forsætisráðherra, sem situr hér frammi og blandar sér ekki í umræðuna, og flestir aðrir ráðherrar hafa talað fjálglega um hvað það hafi verið stórkostlegt að þétta þetta net saman og eru búnir að tala um mikilvægi þess og vitna í sérfræðinga um að það eigi að sameina Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið.

Þá erum við kannski komin að því — af því að ekki er hægt að leita neinna rökrænna skýringa á því af hverju þetta er gert — að það er bara spurning um karakter þeirra aðila sem eru í forustu í ríkisstjórninni. Og við sjáum það, virðulegi forseti, að foringjaræðið hefur aldrei verið meira í íslenskum stjórnmálum, aldrei, það hefur ekki verið nálægt því. Til dæmis var heilbrigðis- og félags- og tryggingamálaráðuneytið sameinað bara út af þráhyggju hæstv. forsætisráðherra, það hafa ekki komið fram nein efnisleg rök fyrir því, hvað þá að þess sjáist merki að það hafi skilað sér í betri þjónustu við þá sem þurfa á þjónustu þess ráðuneytis að halda.

Ég vek athygli á því að það er kaldhæðnislegt þegar hv. þm. Ásmundur Einar Daðason benti hér á auðan stól hæstv. ráðherra, væntanlega ráðherra atvinnuvegaráðuneytis, þetta er stóll hæstv. fjármálaráðherra. Það hefur aldrei verið öðruvísi en að hæstv. fjármálaráðherra hafi setið í þessum stól þangað til núna, að þá bara ákveður hæstv. allsherjarráðherra að þannig eigi það ekki að vera og hann ákvað það líka: Heyrðu, bankarnir eiga að koma til mín. Það eru engin efnisleg rök fyrir þessu og kannski eru skýringarnar á þessum breytingum öllum bara einfaldar, þetta snýst um (Forseti hringir.) óstjórnlegt foringjaræði hjá núverandi ríkisstjórn.