140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:14]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Aðeins út af kostnaðinum, hann verður ekki metinn, allur sá kostnaður sem hefur verið í kringum þetta, einfaldlega vegna þess að það er bara ekki hægt að meta hann. Við vitum það öll sem höfum þurft að hafa einhver samskipti við ráðuneytin, við þingmenn til dæmis út af fyrirspurnum. Ég hef fengið svör við fyrirspurnum sem eru þess eðlis að augljóst er að allt er í uppnámi í viðkomandi ráðuneytum og ég nefni sérstaklega velferðarráðuneytið.

Virðulegi forseti. Af því að hv. þingmaður vísaði til þess að það sé til skoðunar að koma á fót sérstöku sjálfstæðu efnahagsráði óháðra sérfræðinga — bíðum við, hver er að skoða það? Erum við að samþykkja hér eitthvað sem enginn veit hvað er? Hvers konar texti er þetta? Það er bara verið að skoða það. Ég vek athygli á því: Hvað er verið að skoða? Að koma efnahagsmálunum aftur undir forsætisráðherra? Byrjað var á því að taka efnahagsmálin frá hæstv. forsætisráðherra — og þetta er ekki grín, ég veit að margir eru búnir að gleyma þessu — sem átti svo að vera verkstjóri, (Gripið fram í: Já.) hún átti að vera verkstjóri, hún átti að sjá til þess að allt mundi ganga vel. Ef það var markmiðið, sem það var, er þetta hin versta aðgerð í sögu íslensku þjóðarinnar að koma verkstjórn til hæstv. forsætisráðherra og við sjáum afleiðingarnar af því.

Ein afleiðingin, sem menn hafa kannski ekki alveg áttað sig á, er á bls. 4, en þar segir, með leyfi forseta:

„Ef raunverulega á að efla ráðuneytið þyrfti fyrst og fremst að auka getu þess til greiningar, áætlanagerðar og samhæfingar. Slík efling mundi að öllum líkindum krefjast umtalsverðrar fjölgunar starfsmanna.“

Hér er verið að tala um efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Það væri hægt að umorða þennan texta og segja: Þegar við breyttum þessu á sínum tíma vissum við ekki hvað við vorum að gera, við höfðum ekki hugmynd um það og við erum allt í einu búin að átta okkur á því að við erum með efnahags- og viðskiptaráðherra, sem við erum búin að tala um að sé alveg stórkostlegt, en þá bara vantar fullt af fólki þarna. Það getur ekki gert það sem við sögðum að það ætti að gera.

Svo er náttúrlega næsta spurning. Ef þetta fólk vantar í efnahags- og viðskiptaráðuneytið, er þá einhver deild í fjármálaráðuneytinu (Forseti hringir.) sem hefur ekkert að gera með þá þekkingu sem bíður eftir þessum verkefnum? Er það þannig? (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Þetta er svo illa unnið að það er einhvern veginn ekki hægt að lýsa því.