140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:26]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er mergurinn málsins. Þetta er svo ruglingslegt. Slegið er úr og í í þingsályktunartillögunni og verið að draga fram einhver rök sem eru alveg á skjön við fyrri ákvarðanir um að sameina ráðuneyti og skipta öðrum upp — svo var ekki nógu góð reynsla af því þannig að það á bara að halda áfram að sameina og rugla þessu sem mest.

Ég vil minna á að mikil orka og mikill tími hefur farið í það í tíð þessarar ríkisstjórnar að sameina ráðuneytin. Hugsið ykkur. Það er mikið að gera hjá prenturum sem dæmi, sífellt verið að prenta ný umslög og nýja hausa. Hugsið ykkur sóunina á opinberu fé sem á sér stað þó að ekki sé annað en horft til bréfsefnis ráðuneytanna, sífellt verið að breyta um nöfn, menn uppi í stigum hangandi utan á húsum að negla upp nýja stafi á nýjum ráðuneytum. Þetta er náttúrlega ekki boðlegt. Til að kóróna allt voru ráðherraheitin tekin úr sambandi með lögum í tíð þessarar ríkisstjórnar og svo er verið að gera athugasemd við það, herra forseti, að þingmenn kalli þann ráðherra sem situr í þessum stól „allsherjarráðherra“. Í núgildandi lögum er bara (Forseti hringir.) kveðið á um ráðherra …

(Forseti (SIJ): Forseti vill beina því til þingmanns að ávarpa ráðherra á réttan hátt.)

… afsakið, herra forseti, það er nefnilega mergurinn málsins. Ráðherrar eru nú samkvæmt lögum heitislausir vegna þess að í lögum um Stjórnarráð Íslands er sífellt talað um ráðherra. Eini ráðherrann sem hefur heiti þar er forsætisráðherra. Þetta fór ég vel í gegnum. Svo fá þingmenn áminningu fyrir það að verið sé að búa til raunsönn nöfn á ráðherra.

Fyrirgefðu, herra forseti. Hér er tími minn búinn. Þetta var ekki bein spurning. Jú, það er best að ég spyrji þingmanninn að því hvað honum þyki um þessa heitislausu ráðherra.