140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:46]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að segja að þetta voru mjög áhugaverðar vangaveltur hjá hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni í andsvari hér á undan mér vegna þess að þetta er spurning sem brennur á landsmönnum öllum vegna frétta gærdagsins. Það er ljóst að ekki er þingmeirihluti fyrir þessari þingsályktunartillögu hjá ríkisstjórnarflokkunum og því spyr maður sig eins og ég kom inn á áðan: Er þessi umræða algjör tímaeyðsla vegna þess að málið hefur ekki stuðning eða er búið eða er verið eða á að semja við einhverja úr stjórnarandstöðunni til að koma málinu í gegn?

Þetta eru mjög áleitnar spurningar í ljósi þess í hvaða stöðu við erum og sérstaklega í ljósi þess að landsmenn allir eru orðnir dauðþreyttir á þessari verklausu ríkisstjórn. Enn á ný er verið að hræra upp í Stjórnarráði Íslands, algjörlega tilgangslausar breytingar, á meðan fyrirtækin og fjölskyldurnar í landinu hafa vart í sig og á, margar hverjar, og við minnumst nú ekki á lánamálin ógrátandi. Hér er kristaltært í hvað orka forsætisráðuneytisins fer, hún fer fyrst og fremst í Evrópusambandsumsóknina og síðan í þessar umbyltingartillögur um sameiningar ráðuneytanna.

Herra forseti. Það er sorglegt að vera nýr þingmaður hafandi setið rúm þrjú ár á þingi og horft upp á þessa hörmung í rúm þrjú ár núna, horft upp á verklausa ríkisstjórn sem gerir ekkert til að rétta stórskuldugum heimilum hönd sína. Nei, það er verið að vinna í þessum gælumálum og Evrópusambandsumsókn. Gulrótin er að hér verði allt blómlegt á ný og símastaurar grænir aftur ef við göngum í Evrópusambandið því að það sé svo gott að komast þangað inn til að taka upp evruna. Nú þegar eru erlendir fjárfestar farnir að flýja evrusvæðið. Það sjá allir nema Samfylkingin, enda hefur sá flokkur einungis eitt stefnumál og það er það að ganga í Evrópusambandið með illu eða góðu.

Virðulegi forseti. Ég hef komið inn á það að verið er að leggja fram þingsályktunartillögu þar sem ekki er nokkurt kostnaðarmat, ekki eitt einasta kostnaðarmat. Það kom fram í máli þingmanns áðan að það væri vart hægt að leggja kostnaðarmat á þessa þingsályktunartillögu vegna þess hún hefði svo mikil áhrif til lengri tíma. Ég get alveg tekið undir það en ég spyr á móti: Er fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins orðin svo máttlaus gagnvart tillögum frá ríkisstjórninni, frumvörpum og þingsályktunartillögum, að hún hefur gefist upp á að reyna að gefa út kostnaðarmat þegar mál eru lögð fram í þinginu? Ég minni enn á mikilvægi þess að við þingið starfi lagaskrifstofa Alþingis vegna þess að ef við hefðum slíka lagaskrifstofu væri þetta mál dæmt ónýtt. Það hefði verið rekið heim í forsætisráðuneytið og því skipað eða skikkað til að vinna það betur. Þetta er hneyksli. Eitt af því sem kom svo skýrt fram í rannsóknarskýrslu Alþingis var þessi óábyrga framlagning á málum í þinginu, sérstaklega varðandi kostnaðarmat. Mál fara í gegnum þingið og enginn veit hvað það kostar, ekki nokkur maður gerir sér grein fyrir kostnaðinum, og svo er þetta allt í einu komið til framkvæmda. Dæmi: Hér er lagt til að skipuð verði nefnd, fyrir utan hið svokallaða ráðherraráð, til að leggja mat á efnahagsástandið — ekki er lagt fram frumvarp án þess að lagt sé til að fjölga starfsmönnum við ráðuneytin, fjölga starfsmönnum í stofnunum, þessum undirstofnunum sem heyra til ráðuneytanna — og hér er ekki einu sinni lagt mat á eða reynt að gera tilraun til að leggja mat á hvað þetta kostar.

Við vitum að ríkið hefur skuldbundið sig með leigusamningum um húsnæði til 25 ára í sumum tilvikum. Ekki er reynt að leggja kostnaðarmat á hvað það kostar að fara í nýtt húsnæði, en með stækkun ráðuneyta þarf að sjálfsögðu að breyta um húsnæði og það hefur ríkisstjórnin verið að gera síðan hún tók við.

Ég lagði fram fyrirspurn í þinginu hvað 101-væðing ríkisstjórnarinnar hefði kostað frá því að hún tók við — þá á ég við póstnúmer 101 — því að það var stefna ríkisstjórnarinnar að koma öllum ráðuneytum á svæði 101 og stofnunum sem undir þau heyra, hina svokölluðu stjórnsýslu, sem er eins ég hef kallað það kratavæðing stjórnsýslunnar í póstnúmer 101. Það var farið að slaga hátt í 300 milljónir síðast þegar ég fékk tölur um það.

Ég kem til með að halda áfram að spyrja þessa verklausu ríkisstjórn spurninga. Ég ætla að nefna sem dæmi fyrirspurn sem ég lagði fyrir hæstv. forsætisráðherra fyrir ekki svo löngu, því að við ræðum hér mál sem á að leiða það af sér að stjórnsýslan verði stórkostlega bætt og ráðuneytin sameinuð með aukna hagræðingu í huga og að stjórnun ráðuneytanna verði skilvirkari. Það er stutt síðan ég lagði fram þessa fyrirspurn, hún er mjög einföld, í fjórum liðum, og hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hvað hefur ríkisstjórnin sett á stofn margar nefndir frá alþingiskosningunum 2009, sundurliðað eftir ráðuneytum?

2. Hvaða nefndir eru þetta og hvað sitja margir í hverri nefnd?

3. Hver er launakostnaðurinn, sundurliðaður eftir nefndum?

4. Hvað hafa nefndirnar marga starfsmenn?

Þetta er afar einfalt. Hér er verið að spyrja um tveggja ára tímabil. Hér er eingöngu verið að spyrja um nefndaskipan og hvaða nefndir ríkisstjórnin hefur sett á stofn. Þetta ætti ekki að vera flókið, því að eins og allir vita fara ríkisstjórnarfundir fram í forsætisráðuneytinu. Ráðuneytin hljóta að vera með góða gagnagrunna þannig að þetta ætti ekki að vera flókið. En, herra forseti, ég fékk eftirfarandi svar, og ég tek fram að þetta svar barst eftir áramót árið 2012, afar athyglisvert í ljósi þess hvaða mál við erum að ræða nú, með leyfi forseta:

„Framangreind fyrirspurn sem beint er til forsætisráðherra lýtur að skipun nefnda í öllum ráðuneytum Stjórnarráðsins á tilgreindu tímabili. Ábyrgð á skipun nefnda innan Stjórnarráðs Íslands og á faglegu og rekstrarlegu utanumhaldi þeirra hvílir sjálfstætt hjá þeim ráðherra sem skipar nefndina og ráðuneyti hans. Í samræmi við það og ákvæði 2. málsl. 1. mgr. 56. gr. þingskapa ber að beina fyrirspurnum er varða skipun nefnda í einstökum ráðuneytum til þess ráðherra sem fer með viðkomandi ráðuneyti. Sé óskað upplýsinga um skipun nefnda í öllum ráðuneytum ber samkvæmt framansögðu að beina sérstakri fyrirspurn þess efnis til hvers og eins ráðherra.“

Þetta er nú öll samþættingin sem boðuð er í þingsályktunartillögu þessari. Það var ekki nokkurt einasta vandamál áður en núverandi ríkisstjórn tók við að beina fyrirspurnum til forsætisráðherra um mál eins og það sem ég vísaði hér í. Sambærilegt svar fékk ég frá hæstv. forsætisráðherra þegar ég spurði um ferðakostnað ráðuneytisstarfsmanna og ráðherra. Þá fékk ég það svar, nei, forsætisráðuneytið gat ekki upplýst þetta. Ég spurði til dæmis: Eru farseðlakaup ekki á einni hendi í ráðuneytunum? Nei, svo virðist ekki vera. Samþættingin nær ekki til þess að svara fyrirspurnum frá þingmönnum, samþættingin á að ná yfir eitthvað allt annað. Þetta er dæmi um það eins og sagt er að vinstri höndin veit ekki hvað sú hægri er að gera. Þetta er akkúrat dæmi um það að ríkisstjórnin hefur ekki hugmynd um hvert skal haldið með tillögu þessari.

Ég ætla ekki að taka ESB-umræðuna hér, það er búið að fara yfir það og hæstv. núverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra brást svo ókvæða við að mátt hefði halda að það hafi hitt hann beint í hjartastað að þessar breytingar væru gerðar að kröfu Evrópusambandsins vegna þeirrar umsóknar sem nú er í gangi. Ég ætla ekki að fara yfir þau mál hér, enda er tími minn á þrotum, herra forseti, en ég lýsi yfir fullu vantrausti á þessari þingsályktunartillögu. Það er augljóst mál og sérstaklega af svörum ráðherra sem hafa þó tjáð sig hér að þau vita ekki á hvaða vegferð þau eru með þingsályktunartillögunni, enda hafa þau ekki stuðning fyrir henni í þinginu.