140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[16:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mál sem má segja að við höfum rætt margoft á vissan hátt í þinginu, hvernig við viljum hafa skipan ráðuneyta og hver á að fara með það vald. Við erum að takast á um það núna hvort fækka eigi ráðuneytum úr tíu í átta með því að sameina nokkur ráðuneyti í tvö.

Það má eiginlega segja að ég hafi verið stuðningsmaður breytinga af því tagi að auka sveigjanleika varðandi skipan ráðuneyta. Ég hef unnið ásamt fleiri framsóknarmönnum í þeim málaflokki en ég verð að segja að núna skilur leiðir. Ég get ekki stutt það mál sem hér liggur fyrir og ég ætla að fara aðeins yfir það af hverju. Meginrök mín eru að það sé of stutt í næstu kosningar. Ég ætla að fara betur yfir það í ræðu minni.

Framsóknarflokkurinn á mikla forsögu í þessu máli. Ég hef stundum rifjað hana upp þegar við höfum rætt þessi mjög umdeildu mál. Ég ætla aðeins að rifja upp aftur að við í flokknum lögðum til vissar breytingar á sínum tíma eftir mikla vinnu í flokksstarfi. Það var skipuð nefnd um skiptingu Stjórnarráðsins sem skilaði ákveðnum niðurstöðum. Hún var einhuga í afstöðu sinni. Fyrst var formaður Ólöf Vilhjálmsdóttir lögfræðingur sem fór svo til útlanda í vinnu og Gísli Tryggvason lögfræðingur tók við. Í nefndinni voru líka tveir framsóknarmenn frá hverju kjördæmi landsins. Það var þessi kjarni í flokknum sem vann tillögurnar. Það var einhugur um þær. Ég ætla ekki að fara mjög djúpt í þær, en meginstefið var að ríkisstjórn hvers tíma ætti sjálf að skipta með sér verkum, ekki löggjafinn. Ríkisstjórnin átti að sjá um það. Ráðuneytin eru hluti af framkvæmdarvaldinu þannig að ríkisstjórnin, höfuð framkvæmdarvaldsins, átti að skipa málum með þeim hætti sem ríkisstjórnin taldi sterkast á nýju kjörtímabili. Það var hugsað þannig að menn gætu gert breytingar á ráðuneytum og þetta var hugsað í upphafi kjörtímabils til að koma þeim málum fram sem viðkomandi ríkisstjórn vildi leggja áherslu á. Það breytist svo margt í samfélaginu. Það getur verið að ríkisstjórn hvers tíma, ný og ný ríkisstjórn sem kemur að völdum, vilji leggja áherslu á einhvern sérstakan málaflokk og vilji þá stafla ráðuneytunum öðruvísi upp ef við getum notað hálfgert smiðstal í þessu sambandi. Þingið átti ekki að vera með puttana í því.

Þetta var meginhugmyndafræðin. Síðan kemur mál af þessu tagi hér inn, flutt af núverandi ríkisstjórn. Það hlaut gríðarlega slæmar viðtökur hjá stjórnarandstöðunni. Það er bara eins og það er, menn taka stundum annan pól í hæðina þegar þeir fara í stjórnarandstöðu. Það er ekkert við því að segja, margir nýir þingmenn voru kannski líka svolítið óbundnir af fyrri stefnu flokksins. Ég hef haldið þessari stefnu til haga.

Þegar tekist var á um þetta á septemberþinginu á síðasta ári ákvað sú er hér stendur ásamt fleiri þingmönnum að leggja fram nokkurs konar sáttatillögu í því deilumáli sem þá var uppi. Þá var mjög deilt um hvort þingið ætti að hafa afskipti af þessu eða ekki. Hér var talað um gríðarlegt valdaframsal þingsins til framkvæmdarvaldsins. Þetta var allt tengt við ESB-aðild og umræðan fór um víðan völl. Að mínu mati átti hún ekki að snúast neitt inn á þær brautir að hérna væri mikið valdaframsal eða að þetta væri eitthvað tengt ESB-aðildarviðræðunum. Við lögðum fram sáttatillögu undir forustu hv. alþingismanns Eyglóar Harðardóttur. Fleiri voru þarna með, hv. þingmenn Árni Þór Sigurðsson og Margrét Tryggvadóttir. Síðan var komið inn á það í þessari sáttatillögu að þingið ætti að staðfesta breytingar á Stjórnarráðinu og núna erum við sem sagt í þeim sporum að ræða það.

Ég ætla ekki að fara efnislega í þessar breytingar, hvort rétt sé að sameina þetta og hitt ráðuneyti, þennan og hinn málaflokk. Menn geta haft mjög skiptar skoðanir á því. Ég hef hins vegar ákveðnar skoðanir á tímasetningum í þessu sambandi. Það er búið að breyta ráðuneytum nokkrum sinnum, árið 2007 var samþykkt að sameina sjávarútvegsráðuneyti og landbúnaðarráðuneyti og Hagstofan var gerð að sjálfstæðri stofnun. Árið 2009 voru efnahagsmál færð undir viðskiptaráðuneytið og heiti ráðuneytisins breytt. Í ársbyrjun 2011 voru dómsmála- og mannréttindaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti sameinuð í eitt innanríkisráðuneyti og heilbrigðis- og félags- og tryggingamálaráðuneyti sameinuð í eitt velferðarráðuneyti. Þetta var samþykkt í september 2010 og tók gildi í ársbyrjun 2011. Þetta var gert á fyrri hluta kjörtímabils og er núna komið í gagnið. Þetta voru að mínu mati ágætisbreytingar.

Núna erum við hins vegar að ræða nýja skipan mála þegar ár er til kosninga. Að mínu mati er mjög erfitt að rökstyðja þá breytingu og það samrýmist eiginlega ekki þeirri hugmyndafræði sem ég lýsti áðan, að ríkisstjórn hvers tíma ætti að hafa sveigjanleika og gera þetta í upphafi kjörtímabils. Það var ekki hugsað þannig eins og umræðan var hjá okkur að ríkisstjórn hvers tíma gæti gert svona breytingar skömmu fyrir lok kjörtímabils, korteri fyrir kosningar mundu sumir kalla það.

Mér finnst þetta mál vanbúið að þessu leytinu til og er svolítið hissa á því að stjórnarflokkarnir kjósi að fara með það núna inn í þingið. Það hefði alveg sloppið til að gera svona breytingar ef full samstaða væri um þær, en stjórnarandstaðan er ósátt við þetta mál og sumir í stjórnarflokkunum eru líka ósáttir þannig að mér finnst málið ekki gott að þessu leyti.

Svo vil ég að lokum segja, virðulegur forseti, að umræðan hérna hefur gengið svolítið mikið út á að þetta muni valda því að embættismannakerfið verði gríðarlega sterkt. Ég er mjög ósammála þeim sjónarmiðum. Í dag er ekki til neitt á Íslandi sem heitir sterkt embættismannakerfi, því miður. Embættismannakerfið er ekki sterkt, menn eru að gera sitt besta en það er fámennt. Við erum með ótrúlega veik og fámenn ráðuneyti. Það væri miklu nær að styrkja ráðuneytin, jafnvel á kostnað undirstofnana, en tala um að embættismannakerfið verði eitthvað gríðarlega sterkt við sameiningu ráðuneyta. Það er ekki þannig. Mig minnir að við höfum til dæmis fengið 53 mál frá ríkisstjórninni fyrir mjög stuttu, þau voru lesin upp í upphafi fyrsta þingfundar eftir páskahlé. Af hverju koma þessi mál svona ofboðslega seint inn? Það eru ýmsar ástæður fyrir því, þar á meðal veikt embættismannakerfi. Það er ekki nógu mikill floti að vinna í þessum málum. Önnur ástæða er að ráðherrar eru of seinir að taka ákvarðanir, embættismennirnir komast ekki nógu mikið að ráðherrunum til að útkljá mál með þeim o.s.frv.

Ég vildi aðeins að lokum taka upp hanskann fyrir embættismannakerfið. Það er ekki mjög sterkt. Allir eru að gera sitt besta. Það þyrfti að vera sterkara. Þegar fólk gefur í skyn á hinu háa Alþingi að embættismannakerfið sé ekki að vinna að hagsmunum þjóðarinnar og þeirra málefna sem undir ráðuneytið falla segi ég að það er rangur málflutningur. Ég tel að embættismenn okkar séu upp til hópa góðir, öflugir, liprir og vilji gera allt sem þeir geta. Þeir eru of fáliðaðir, ráðuneytin of veik og það þyrfti að styrkja þau.