140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:13]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Ég get ekki kveðið upp úr um hvað vakir fyrir ríkisstjórnarflokkunum og hæstv. ráðherrum þegar þeir leggja fram málið í þessu formi, hvort það er eitthvað óþarflega opið til að geta samið um það. Ég átta mig ekki á því.

Ég tel þetta mál bara koma of seint inn. Meginreglan hlýtur að vera sú að þegar ríkisstjórn tekur við raði hún í upphafi kjörtímabils ráðuneytum í takt við þau áherslumál sem hún hefur. Það gera menn ekki þegar kjörtímabilið er að líða undir lok. Segjum að við mundum gera þessar breytingar eftir hálft ár, stuttu fyrir kosningar, það er bara ekki mjög skynsamlegt. Það eru ákveðnar líkur á því, ég ætla ekki að kveða upp úr um hvað þær eru miklar, að ný ríkisstjórn taki við eftir næstu kosningar. Þær eru að vori. Sú ríkisstjórn kemur að þessu borði og mun semja nýjan stjórnarsáttmála. Hún mun leggja áherslu á einhver mál. Við vitum ekki algjörlega í augnablikinu hvernig þau líta út en það má vera að sú ríkisstjórn vilji gera breytingar á Stjórnarráðinu, jafnvel breytingar sem eru alls ekki í þessum anda. Það gæti verið en við vitum það ekki.

Ég tel ekki að maður eigi að fara í breytingar af þessu tagi svona seint á kjörtímabilinu. Mér finnst þetta misráðið og ég er svolítið hissa á að menn skuli fara í þessa vegferð svona seint. Mér finnst ágætt að gera þær breytingar sem ríkisstjórnin gerði á fyrri hluta kjörtímabils, ég studdi þær og tel þær hafa verið góðar. Þetta er hins vegar of seint fram komið. Menn eiga ekki að vinna á þessu tempói.