140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:17]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég endurtek að ég tel að mál af þessu tagi þurfi að vera skýrt þannig að menn viti um hvað er að ræða. Tilgangurinn með sáttatillögunni á sínum tíma var að koma til móts við gagnrýni manna sem vildu vita hvað ríkisstjórnin á hverjum tíma væri að fara að gera og fengju þá góða kynningu á því í þessu þingsályktunarformi sem við erum einmitt að ræða hérna.

Varðandi það efnislega hvað á að heyra undir hvað kaus ég í ræðu minni að fara ekki í það. Það er ekki byggt á neinni skoðun hvort þetta og hitt ráðuneytið eigi að falla saman eða ekki, en ég get þó upplýst að þegar framsóknarmenn fóru í þessa vinnu í flokknum og samþykktu hana 2007 og svo að lokum 2009 var þar á meðal rætt um atvinnuvegaráðuneyti, þ.e. að færa saman iðnaðarráðuneyti og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti þrátt fyrir að hagsmunaaðilar í þeim málaflokkum væru andsnúnir því. Ég hef vissan skilning á því að hagsmunaaðilar séu andsnúnir því. Þeir eru núna í ágætissamskiptum við sín ráðuneyti eins og þau hafa litið út og menn vita hvað þeir hafa og vita ekki hvað þeir fá, hræddir við að missa einhver tengsl. Megingagnrýni mín á þetta mál núna snýr bara að því að það er of seint í rassinn gripið. Þegar menn gera svona breytingar eiga þær að vera á fyrri hluta kjörtímabils nema það sé eitthvað sem blasir svo við og menn eru þokkalega sammála um að gera, þá er í lagi að koma með það en samt ekki mjög seint. Praktískt séð er það mjög óæskilegt ef næsta ríkisstjórn gerir breytingar (Forseti hringir.) stuttu síðar.