140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:38]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil taka upp það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson gat um og það er það að á bls. 2 er vitnað í Ríkisendurskoðun. Þar segir að vel hafi verið staðið að flestum þáttum við undirbúning og framkvæmd sameiningarinnar, og á þá við velferðarráðuneytið. Síðan eru taldir upp átta liðir.

Í 2. lið, Stærri og öflugri einingar, segir t.d.:

„Betri nýting á fjármunum hefur leitt til aukins sveigjanleika til þess að mæta t.d. stefnumörkunarverkefnum og áherslum ríkisstjórna hverju sinni.“

Í 5. lið er talað um betri yfirsýn yfir málaflokka og sagt:

„Ljóst er að með stofnun nýrra ráðuneyta hefur náðst betri yfirsýn í þeim málaflokkum sem ráðuneytin sinna.“

Maður kynni að halda að þetta komi frá Ríkisendurskoðun og ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Kemur þetta frá Ríkisendurskoðun eða er verið að setja þetta upp þannig að maður haldi að þetta komi frá Ríkisendurskoðun?