140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég skildi þetta allt öðruvísi þegar ég las þetta. Ég skildi það þannig að þetta væri frá Ríkisendurskoðun. En greinilega er það höfundur greinargerðarinnar sem setur þetta fram og þá er spurningin: Á hverju byggði hann? Hvaða rannsóknir gerði hann? Hvar liggja þær og hvað býr að baki því að menn geta fullyrt að sameiningarnar sem hafa átt sér stað í innanríkisráðuneytinu og velferðarráðuneytinu hafi gefið svona góða raun? Þetta er það sem vantar. Það er svo margt sem vantar inn í þessa þingsályktunartillögu sem ég sakna. Mér finnst eins og menn séu að reyna að koma með þingsályktunartillögu til að koma með þingsályktunartillögu. Hún er höfð loðin og óljós til að fara fram hjá því ákvæði sem Alþingi setti í lögin um Stjórnarráðið, að koma þyrfti með þingsályktunartillögu.

Hér hefur til dæmis komið fram að Hafrannsóknastofnun á að heyra undir atvinnuvegaráðuneytið. Það liggur fyrst núna klárt fyrir.