140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir það sem hv. þingmaður er að nefna varðandi þær breytingar sem við erum að gera. Við erum að styrkja umhverfis- og auðlindaráðuneytið og það hefur ljóslega komið fram. Auk þeirra verkefna sem heyra undir umhverfisráðuneytið þá er umhverfis- og auðlindaráðuneytinu til framtíðar ætlað að skilgreina þau viðmið sem leggja þarf til grundvallar sjálfbærri nýtingu og síðan á að koma á samstarfsvettvangi umhverfis- og auðlindaráðuneytisins þar sem á að tryggja nánast samvinnu milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis í tengslum við sjávarauðlindir. Þar á að setja á fót ákveðinn samráðsvettvang sem fulltrúar beggja ráðuneytanna munu eiga sæti í auk annarra sérfræðinga. Þannig er verið að auka samvinnuna á milli þessara ráðuneyta og skerpa mikilvæga sjálfbærni í nýtingu þannig að samvinna sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, sem hingað til hefur farið með mál þessara atvinnugreina, og umhverfisráðuneytisins, verði miklu meiri en verið hefur.