140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:50]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega löngu komið fram að ég og hæstv. forsætisráðherra erum ósammála um að þetta sé leiðin til að bæta stjórnsýsluna og styrkja ráðuneytin.

Það vekur einnig athygli mína að ekki er farið eftir þeim ábendingum sem erlendir óháðir ráðgjafar hafa sett fram varðandi fjármálahlutann af þessu öllu saman. Það verður að segja eins og er að það er svolítið sérstakt að troða hluta af efnahagsmálum og eftirlitsmálum inn í atvinnuvegaráðuneyti. Maður hefur á tilfinningunni að menn hafi verið að leita að húsaskjóli fyrir þessi verkefni og því hafi þau verið sett þarna inn í stað þess að hafa áfram efnahags- og viðskiptaráðuneyti og reyna að efla það með einhverjum hætti.

Það er annað sem ég vil koma að í lokaandsvari við hæstv. ráðherra. Það er mjög skammt til kosninga. Þá mun ný ríkisstjórn taka við völdum í landinu Hún mun væntanlega taka sínar ákvarðanir varðandi þau ráðuneyti og þá stjórnsýslu sem hún vill vinna að þau fjögur ár sem þá blasa við. (Forseti hringir.) Það er svolítið sérstakt að fara á lokaspretti ríkisstjórnarinnar fram með breytingartillögu sem aðrir munu augljóslega vilja hafa aðrar skoðanir á.