140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

699. mál
[17:51]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gætu alveg verið líkur á því að þessi ríkisstjórn verði hér áfram á næsta kjörtímabili. Hún hefur þá farið í gegnum þær breytingar sem hún ætlar að gera og það verður þá ekki hreyft við þessu næstu fjögur árin að minnsta kosti.

Verið er að vitna í erlenda sérfræðinga og ég býst við að þar sé um að ræða Finnann Jännäri. Í tillögum hans var aldrei lögð til stofnun á efnahagsráðuneyti sem slíku. Það var fyrst og fremst verið að leggja til af hans hálfu fækkun á ráðuneytum sem hafa með lög sem tengjast fjármálamarkaðnum að gera. Það var fyrst og fremst hans niðurstaða. Ég tel að enn sé ráðleggingum hans fylgt þó að verið sé að gera þessar breytingar varðandi það að flytja hagstjórnina og Seðlabankann inn í fjármálaráðuneytið og skipta efnahagsráðuneytinu upp.

Ýmsar stærstu ábendingar sem hann gerði lutu að sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka og þar er hann ósammála til dæmis Jóni Sigurðssyni sem telur ekki rétt að sameina þessar stofnanir. En ég held að við séum fullkomlega að fara eftir því sem þessi erlendi sérfræðingur sagði þó að við séum að gera þessar breytingar.