140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:08]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og hún er mjög góð. Ef metinn er andi laganna sem ég vitnaði oft í áðan, nr. 48 frá árinu 2011, eru þar í 5. gr. og fleiri greinum varúðarsjónarmiðin höfð að leiðarljósi. Það er mat mitt að okkur ráðherrunum hefði ekki verið leyfilegt að færa virkjunarkost úr biðflokki yfir í endanlega flokkun sem er annaðhvort hvort vernd eða nýting vegna þessara varúðarsjónarmiða. Virkjunarkostur í biðflokki þarfnast rannsóknar, þar eru einhverjar spurningar sem ekki hefur verið svarað. Ég lít því svo á að ef það að hafa tekið tillit til þess sem kom fram í umsagnarferlinu, sem okkur ber reyndar (Forseti hringir.) lagaleg skylda til, er fordæmisgildi þá sé það fordæmisgildi hlaðið varúðarsjónarmiðum.