140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:20]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum alveg hvernig það gengur fyrir sig þegar umsagnir koma fram, þegar valdar eru umsagnir sem tekið er tillit til. Auðvitað er það þannig að ráðherrarnir tveir sem hér um ræðir, ef þeir sátu yfir þessu, hafa einfaldlega valið þær athugasemdir sem þeim þótti henta. Við sjáum þetta gerast alls staðar. Þegar verið er að vinna að ákveðinni niðurstöðu taka menn að sjálfsögðu þær athugasemdir sem þeim hentar. Þær athugasemdir sem voru á annan veg og komu til ráðherra, hvert fóru þær? Hvað varð um þær athugasemdir þar sem til dæmis var hvatt til þess að einhverjir af þeim kostum sem eru í biðflokki yrðu færðir í nýtingarflokk? Hvað varð um þær athugasemdir? Kom engin slík athugasemd fram?

Ég vil benda á varðandi 10. gr. þeirra laga sem ráðherra vísaði í, ef gerðar eru breytingar á tillögu verkefnisstjórnar, að í 3. mgr. eru taldir upp aðilar sem eiga að fá tillöguna til umsagnar aftur eftir að breytingarnar hafa verið gerðar. Var það gert? Fengu allir þessir aðilar (Forseti hringir.) tillöguna aftur til umsagnar?