140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mig langar að leiðrétta það að það var ekki verkefnisstjórnin sem vann drögin að þingsályktunartillögunni heldur formenn faghópa, formaður verkefnisstjórnar og embættismenn ráðherranna. Það er því ekki hægt að segja að þau hafi verið unnin af verkefnisstjórninni. Auðvitað skil ég að ef hæstv. ráðherra kom ekki að málinu varðandi skoðanakönnunina, geti hún ekki svarað þeirri spurningu hversu mikil áhrif hún hafði.

Þá langar mig að beina fyrirspurn til hæstv. ráðherra varðandi virkjanirnar í Þjórsá. Nú hafa þær valdið miklum deilum. Í vinnu verkefnisstjórnarinnar fengu þessar virkjanir ákveðna flokkun eða röðun, þ.e. í hinu faglega ferli, sem gaf vísbendingu um að þetta væru hagkvæmir kostir og maður áleit að þeir mundu allir flokkast í nýtingarflokk.

Einhverra hluta vegna er voðalega erfitt að horfa fram hjá því að það séu pólitísk fingraför á því, eins og komið hefur fram í umræðunni, (Forseti hringir.) að þessir kostir raðist allir inn í biðflokk. Nú hefur hv. samþingmaður og samflokksmaður hæstv. ráðherra Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis, (Forseti hringir.) ýjað að þeirri leið að taka hluta af þessum virkjunum og færa þær aftur í nýtingarflokk. Hefur hæstv. ráðherra skoðun á því?