140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:43]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Mér fannst hv. þingmaður ekki svara mér nægilega skýrt. Er það að mati þingmannsins — því svo má dæma af málflutningi sjálfstæðismanna hingað til — hin faglega niðurstaða í þessum efnum ef þeir sex virkjunarkostir sem samkvæmt þessari tillögu eru settir í bið væru í nýtingu? Það væri hin faglega niðurstaða sem ætti að fara eftir? Er það mat þingmannsins? Skil ég þetta rétt, málflutning hans og annarra sjálfstæðismanna sem hafa talað að undanförnu um hin faglegu vinnubrögð?

Til þess að upplýsa hv. þingmann um hin meintu pólitísku afskipti þegar hann talar um að fulltrúa sé skipt út í verkefnisstjórn sem skipuð var eins og ég sagði hér áðan af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu, þá kom einmitt þessi fulltrúi ekki að hinni faglegu niðurröðun eða faglegu flokkun heldur voru það eins og hér hefur komið fram formenn faghópa og formaður verkefnisstjórnar. Ég held því að hv. þingmaður þurfi að hafa litlar áhyggjur af því. Ég ítreka spurningu mína og bið um skýrt svar við henni.

Þar sem ég hef örlítinn tíma aflögu langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að vísindamenn, mjög mikils metnir jarðvísindamenn og fleiri, sem vara mjög við ósjálfbærri nýtingu háhita og háhitasvæða þar sem reynslan kennir okkur líka að við búum við brennisteinsmengun, við búum við mikil vandkvæði og vandamál sem lúta að affallsvatni, reynslan sýnir okkur aukna jarðskjálftavirkni o.s.frv. — væri það ekki faglegt af okkar hálfu að hlusta á vísindamenn í þessum efnum og hlusta á reynsluna og fara fram af meiri varkárni og varfærni í nýtingu háhitasvæða (Forseti hringir.) heldur en ýmsir vilja leggja til?