140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[18:48]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að mörgum hafi verið það ljóst, þar á meðal veit ég um nokkra í verkefnisstjórninni, að þegar stjórnarflokkarnir ákváðu að setja fingraför sín á þetta plagg áður en það kom inn í þingið þá var svolítið verið að kippa fótunum undan þeirri vinnu sem menn hafa lagt á sig í langan tíma til að fylkja fólki á bak við tillöguna sem átti að leggja hér fram.

Margir sem voru ekki á þingi þá, í sveitarstjórnum eða annars staðar, voru á sínum tíma mjög ósáttir við tillögur verkefnisstjórnarinnar en töldu engu að síður rétt að ná einhverri lendingu til framtíðar þannig að menn gætu horft fram á við og áttað sig á því hvað væri í boði næstu árin og um hvað mundi ríkja þokkaleg sátt. Það er ekki hægt að líta fram hjá því að það eru mjög deildar meiningar um ýmsar virkjanir sem settar voru í biðflokk, hvort þær séu nægjanlega rannsakaðar eða ekki. Margir telja að virkjanir eins og Villinganesvirkjun, svo að eitthvað sé nefnt, sé fullkomlega tilbúin að fara í framkvæmd, fyrir liggi allar rannsóknir. Ég nefni bara dæmi.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig sú tillaga sem hann hefði hugsanlega stutt eða viljað hleypa áfram í gegnum þingið hefði getað litið út. Ég náði því ekki alveg í ræðu þingmannsins áðan. Hefði sú tillaga sem kom frá verkefnisstjórninni ekki átt að vera það plagg sem færi inn í þingið til málefnalegrar umræðu áður en þessi snúningur var tekinn í ráðuneytunum? Það er ekkert sem segir í (Forseti hringir.) lögunum að ráðherra beri að færa til í þessum flokkum.