140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Stórt er spurt. Ég tek undir það að við Íslendingar verðum að nýta þær auðlindir sem við eigum. Ég segi líka: Við verðum að sjálfsögðu að nýta þær skynsamlega. Í orðræðunni er mikill meiningarmunur á því hvað telst skynsamleg nýting, ég held að það sé nú kannski það sem málið snýst um ef maður reynir að hnoða þessu saman með einhverjum hætti.

Ég held að efnahagsleg áhrif af því að grípa ekki þau tækifæri að nýta auðlindir okkar, hvort sem það er orkan, fiskurinn, ferðamennskan eða vatnið, séu að sjálfsögðu neikvæð. Við höfum í dag úr litlu öðru að moða. Við eigum auðvitað mikið af hugviti og góðu fólki og slíku en í dag er það þetta sem heldur okkur gangandi. Við verðum þess vegna að nýta þetta.

Svo að ég einfaldi hlutina svolítið finnst mér, út frá þeirri staðreynd að það er tiltölulega fljótlegt, að mér skilst, að fara til dæmis í nýtingu á Norðlingaölduveitu og neðri hluta Þjórsár, mjög slæmt að missa af því tækifæri. Ég hef því miður ekki enn náð að kynna mér nákvæmlega þau áhrif sem um er að ræða, sérstaklega af Þjórsárvirkjun. Ég þekki aðeins orðið til Norðlingaölduveitu og botna ekkert í af hverju ekki er farið í hana. En með hitt vil ég aðeins hafa varann á, en miðað við það sem ég hef náð að lesa frá orkufyrirtækjum og öðrum sýnist mér að þetta sé mjög áhugavert.

Það er því mjög slæmt fyrir þjóðarbúið að láta tækifærin fara fram hjá sér ef þau eru skynsamleg (Forseti hringir.) og það er slæmt fyrir efnahag Íslands.