140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:14]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að sú rammaáætlun sem unnið hefur verið að undanfarin 13 ár sé einhver mikilvægasta og þýðingarmesta tilraun sem menn hafa gert til að reyna að ná sáttum í ákaflega erfiðu máli sem deilur hafa staðið um áratugum saman. Þeir sem höfðu frumkvæðið að því, þáverandi ríkisstjórn árið 1999, eiga auðvitað þakkir skildar og það lýsir mjög mikilli framsýni.

Ég man vel þegar þetta var að gerast, ég var þá á þingi, og þá var þetta engan veginn óumdeilt mál. Menn bentu á að þarna væri kannski verið að afsala þinginu einhverjum völdum sem það hefur hingað til haft til þess að taka ákvarðanir um virkjanir á einstökum stöðum. Þetta var sem sagt sett í þetta mikla ferli og það er ekki eins og það hafi verið gert þannig, eins og mér hefur fundist á umræðunni, að þetta hafi verið unnið í einhvers konar fílabeinsturni þar sem saman hafi komið tíu vitringar og komist að einhverri skynsamlegri niðurstöðu.

Ef við lesum í gegnum þennan þykka doðrant sem er síðasta skýrslan sem kom fram vegna rammaáætlunarinnar kemur þvert á móti fram að leitað var víðtæks samráðs. Það sem síðan gerðist var að leikreglunum var breytt til að búa til þetta viðbótarsamráð í lokin. Við skulum láta það liggja á milli hluta, en hins vegar er öllum ljóst að það sem ríkisstjórnin gerði og hæstv. ráðherrar gerðu var að búa sér til skjól af þessari nýju lagasetningu til að geta haft hin pólitísku áhrif. Það blasir við öllum mönnum. Menn geta farið með möntruna sína um að þetta hafi allt verið í samræmi við Árósasáttmálann og lögin, en er ekki hv. þingmaður mér sammála um að það sem hér hefur gerst sé algjört stílbrot á þeirri vinnu sem hófst 1999? Það er í raun og veru búið að tefla í mikla tvísýnu og hættu (Forseti hringir.) öllum þeim árangri sem hafði unnist fram að því að hin (Forseti hringir.) pólitísku afskipti hófust á síðasta ári.