140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:18]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem setur okkur sem sitjum í atvinnuveganefnd í mikinn vanda er að þetta mál kemur svo seint fram. Það er ljóst að þessu máli verður ekki vísað til nefndarinnar fyrr en þá mögulega í lok þessarar viku eða kannski ekki fyrr en í næstu viku og atvinnuveganefnd er upp fyrir haus að fást við önnur mál sem eru líka mjög veigamikil. Það gefur þess vegna augaleið að á þeim tiltölulega fáu dögum sem eftir eru áður en þingi lýkur í vor er ekki mikill tími til að fara ofan í málin.

Það hefði til dæmis verið miklu auðveldara ef um alla vinnuna hefði verið sátt alveg til enda og menn ekki farið að vefengja, eins og við erum að gera hér, það vinnulag sem á þessu var haft undir lokin. Við gerum okkur grein fyrir því að á öllum málum sem eru borin inn í þingið er einhver pólitísk ábyrgð og auðvitað er þetta á pólitíska ábyrgð ríkisstjórnarinnar. Það er þá líka pólitísk ábyrgð ríkisstjórnarinnar hvernig haldið var á málum og hvernig verið er að tefla átakamáli, sem búið er að taka 13 ár (Forseti hringir.) að reyna að leiða hér í jörð, (Forseti hringir.) aftur núna í tvísýnu og ágreining.