140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:21]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kvartaði undan því í ræðu sinni að stjórnarandstaðan hefði ekki haft aðkomu að þessu máli. Á síðasta ári voru samþykkt lög nr. 48/2011, ég var reyndar ekki á þingi þegar þau voru samþykkt en tel mig vita að Framsóknarflokkurinn hafi ekki lagst ekki gegn þeim. Hv. þingmaður verður að leiðrétta mig ef ég fer með rangt mál. Hér leggur iðnaðarráðherra í samráði og samvinnu við umhverfisráðherra lögum samkvæmt fram þessa þingsályktunartillögu. Þar kemur fram að málið eigi, einmitt samkvæmt ákvæði til bráðabirgða við þessi sömu lög og hér voru samþykkt, að leggja tillöguna til umsagnar í opnu umsagnar- og samráðsferli. Og ég spyr hv. þingmann: Var hann sammála þeim lögum sem hér voru samþykkt, er hann í grundvallaratriðum sammála þeirri aðferðafræði og nálgun sem áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða hefur að leiðarljósi eða er hann í grundvallaratriðum ósáttur við hana? Finnst honum að hann eigi að geta komið upp og sagt að þessi og hin virkjunin eigi að vera hér og þar eða hefur hann trú á þessu ferli í prinsippinu? Ef hann hefur það, telur hann þá eitthvað rangt við það að fara með málið í umsagnarferli samkvæmt þeim lögum sem hér voru samþykkt? Ef hann telur það rétt, á þá ekki að hlusta eftir því sem fram kemur í umsögnum? Hvaða þýðingu hefur þetta annars?

Hér er einnig talað eins og það að setja tiltekin svæði í biðflokk, sem lögum samkvæmt eiga að vera í biðflokki ef upplýsingar vantar um þau, sé meiri háttar skemmdarverk, (Forseti hringir.) einhver stórkostleg hætta á ferðum þegar einungis er verið að segja, lögum samkvæmt, að ef upplýsingar vantar (Forseti hringir.) um tiltekin mál í þessu samhengi eigi svæði að vera í biðflokki. Telur hv. þingmaður þetta ekki í anda þeirra laga sem voru samþykkt á þinginu? Ef ég veit rétt, sem ég veit kannski ekki vegna þess að ég var ekki á þingi þegar frumvarpið var samþykkt, (Forseti hringir.) var þessu ekki mótmælt.

(Forseti (ÞBack): Forseti áminnir þingmenn enn um að gæta að tímanum.)