140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:24]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef upplýsingar vantar um verkefnin, spurði hv. þingmaður. Jú, ef það er sannarlega þannig að upplýsingar vanti. Ég nefndi eina virkjun áðan, Villinganesvirkjun, og ég veit ekki til þess að það vanti neinar upplýsingar um hana. Að mínu mati vantar ekki upplýsingar. Það hefur hins vegar komið fram ádeila á þær upplýsingar sem komu fram en ég er ósammála því svo því sé haldið til haga.

Varðandi lagafrumvarpið man ég ekki betur en að sá er hér stendur hafi staðið að þessu lagafrumvarpi. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að samkvæmt lögum eiga ráðherrarnir að fara með þetta vald eða gera hlutina eins og þarna stendur. Hv. þingmaður rakti það réttilega. Það sem ég sagði hins vegar var að fyrst ráðherra tók þá ákvörðun að breyta tillögunni, færa þarna á milli, hefði verið skynsamlegra að leita eftir því að fleiri kæmu að. Það er ekkert í lögum sem segir að það eigi að vera þannig, við skulum alveg hafa það á hreinu, það er ekkert í lögunum, en ég hefði talið það betra fyrir málið og skynsamlegra ef það hefði verið gert. Ég er ekki að segja að það hefði náðst einhver hallelújasátt út úr því, alls ekki, ég er bara að segja að það hefði verið betra fyrir málið ef það hefði verið gert.

Á að hlusta á umsagnirnar? Já, við hljótum að hlusta á umsagnirnar. Við hljótum að hlusta á allar umsagnir, líka þær sem vilja taka virkjanir úr biðflokki og setja í nýtingarflokk. Við hljótum að gera það ef það eru færð rök fyrir því og ef upplýsingar liggja fyrir. Ég tek fram að ég hef ekki lesið allar þessar 200 og eitthvað umsagnir. Ég er bara að segja að ef það er þannig hlýtur að eiga að hlusta á aðra líka.

Ég vil líka taka fram að hvort sem (Forseti hringir.) sá er hér stendur sá það þegar þessi lög voru samþykkt eða sér það fyrst núna eru hlutir í þessum lögum (Forseti hringir.) sem mættu gjarnan vera öðruvísi.