140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:29]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Ég tek undir þau orð sem fram hafa komið um fagnaðaryfirlýsingar yfir því að tillagan skuli vera komin til umfjöllunar þingsins. Mér finnst í sjálfu sér umhugsunarefni það viðnám sem nýtingarsinnar sýna þegar við nálgumst endareit þessa langa ferlis. Það er kannski eðlilegt í vissum skilningi vegna þess að svo hefur virst á köflum, og sérstaklega þegar umræddir flokkar fóru með meirihlutastjórn í landinu, að landið væri allt í nýtingarflokki.

Staða náttúruverndar í ákvarðanatöku er þáttur sem mér finnst skipta afar miklu máli í þessari umræðu og við gáfum ákveðin fyrirheit við myndun þessarar ríkisstjórnar um að efla stöðu náttúruverndar í Stjórnarráðinu, að virða meginreglur umhverfisréttarins, að virða regluna um varúð og að virða sjónarmið um sjálfbæra þróun við allar okkar ákvarðanir.

Við eigum skuldbindingar við komandi kynslóðir og við þurfum að velta umboði okkar fyrir okkur í hverri einustu ákvörðun. Sú kynslóð sem nú er uppi verður að íhuga stöðu sína og völd gagnvart þeim kynslóðum sem ekki hafa rödd fyrr en í framtíðinni. Þegar þessi tillaga hefur verið afgreidd er í raun um gjörbreytta stöðu að ræða að því er varðar ráðstöfun náttúrusvæða. Við erum að tala um nýjan grunn. Stundum hefur verið sagt að við séum að tala um sátt. Ég held að við séum að tala um forsendur fyrir sátt, við erum ekki að tala um sáttina sjálfa heldur í raun og veru forsendur til þess að hún geti orðið. Það ríkir mikil tortryggni og það er djúpstæður vandi í samskiptum þeirra sem aðhyllast náttúruvernd og þeirra sem aðhyllast nýtingu og það er að gefnum tilefnum, allmörgum.

Náttúruverndin hefur staðið öfluga vakt um árabil og oft og iðulega gegn ofurefli, nánast alltaf gegn ofurefli, fjármagni, skammsýni og háværum hagsmunum nýtingarsinna og þess sem stundum hefur verið kennt við yfirgang stóriðjuaflanna. Hér er lagt til að fjöldi svæða verði settur í vernd. Hér hafa verið nefnd nokkur af þeim svæðum. Ég nefni Norðlingaöldu, Torfajökulssvæðið, Bitru, Gjástykki, Grændal, Brennisteinsfjöll o.fl. Hér erum við að hlaða vörðu í löngu ferli og langri sögu náttúruverndar á Íslandi. Mörg svæði eru sett í biðflokk, þau þarf öll að skoða betur, þau má íhuga, þau má yfirvega, þar má velta vöngum, ekki síst um svona stórar ákvarðanir til svo langs tíma. Biðflokkurinn er flokkur sem gerir ráð fyrir að upplýsingar skorti, að málin séu skoðuð betur og sú skoðun þarf alltaf að byggja á bestu yfirsýn á sem flestum hliðum. Ný verkefnisstjórn rammaáætlunar þarf að taka til starfa á grundvelli laganna og fjalla um þessi svæði frá öllum hliðum, þar með talið spurningar varðandi lífríki, samspil við víðerni, þjóðgarða og samfélagslega þætti.

Sem betur fer er vaxandi skilningur á náttúruvernd í samfélaginu, friðlýsingum hefur fjölgað. Vatnajökulsþjóðgarður hefur eflst, auk þess sem verndaráætlun hefur verið samþykkt fyrir það svæði sem er mikilvægt verkfæri í þágu náttúruverndarsjónarmiða. Rammaáætlun er ekki í tómarúmi, rammaáætlun kallast á við ótalmörg önnur sjónarmið. Hún kallast meðal annars á við orkustefnu, hún kallast á við náttúruverndaráætlun og hún kallast líka á við landsskipulagsáætlun til lengri framtíðar. Í þingsályktunartillögunni er fjallað nokkuð um jarðhitasvæði og nýtingu þeirra. Þar þarf að fara varlega, þar er sérstakur texti sem kveður á um að svara þurfi spurningum varðandi umgengni okkar um jarðhitann. Mörgum spurningum er enn ósvarað, eins og komið hefur fram í máli margra þingmanna, spurningum varðandi sjálfbærni, varðandi umgengni um auðlindina, varðandi brennisteinsmengun og niðurdælingar, varðandi jarðskjálftavirkni og það er brýnt að gæta sérstaklega að þessum þáttum vegna þess að við höfum þessa auðlind aðeins að láni frá komandi kynslóðum.

Þau svæði sem síðan rata í nýtingarflokk eiga eftir að fara í gegnum matsferli og leyfisveitingar eins og vera ber þótt í mismiklum mæli sé og þau séu á mismunandi stað í ferlinu. Hér er ekki verið að ákveða að einhvers staðar eigi að virkja heldur að það megi gera það að uppfylltum öllum skynsamlegum skilyrðum.

Náttúruvernd á sem betur fer sífellt fleiri málsvara í samfélaginu en enn þá eru raddir nýtingar og ágangs mjög háværar og þær eiga sér sannarlega málsvara hér í þingsal. Það er veruleg þörf á jafnvægi í þessari umræðu, það er veruleg þörf á yfirvegun, ró og ábyrgð í þessari umræðu. Ég lít svo á að sú tillaga sem hér er til umræðu gæti orðið mikilvægt framlag til þess að stuðla að slíku jafnvægi.

Virðulegur forseti. Sérhver ákvörðun sem við tökum í þessu efni, eins og öðrum sem varða umgengni við náttúru Íslands, verður að byggja á varúðarsjónarmiðum. Okkur ber að láta hverja ákvörðun byggja á varúðarsjónarmiðum. Það eru sjónarmiðin sem við leggjum til grundvallar þegar tekin er afstaða til röðunar verkefnisstjórnar til að byrja með, tillögunnar sem síðan fer í umsagnarferli, úrvinnslu umsagnanna og síðan lokatillögu ráðherranna sem um ræðir. Það skal tekið fram og ítrekað að þetta ferli er allt saman í samræmi við gildandi lög í landinu. Ef menn kjósa að kalla það pólitísk fingraför að fara að lögum finnst mér það nokkuð alvarleg orðræða sem menn ættu að fara varlega í að beita þegar svo mikilvægir hagsmunir eru annars vegar.

Menn hafa líka rætt um að hér hafi verið rofið eitthvert ferli sem hófst fyrir aldamót. Við verðum að halda því til haga að í 1. áfanga rammaáætlunar frá árinu 1999 til 2003 var sjónarhornið á orkunýtingu og áhersla lögð á stærri vatnsaflsvirkjanir sem flestar byggðu á lónum á hálendinu og jarðhitavirkjunum nærri byggð. Í skipunarbréfi verkefnisstjórnar 2. áfanga rammaáætlunar var kveðið á um að verkefnið skyldi snúast um vernd og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði. Það var nýr tónn, það var víðari sýn, það var sýnin á vernd og fjölbreytta nýtingu náttúruauðlinda í þágu ferðaþjónustu, í þágu annarrar atvinnuuppbyggingar en hefðbundinnar orkunýtingar. Einnig var lögð áhersla á að verkefnisstjórnin rýndi sérstaklega sjálfbærni umræddra orkuauðlinda.

Það verður að hafa í huga, ekki síst með hliðsjón af því að þegar kemur að þriðju verkefnisstjórninni, sem tekur til starfa sem allra fyrst, þarf hún að taka til skoðunar þá þætti sem ekki hafa verið teknir til skoðunar hingað til. Við þurfum að efla fagmennskuna í hverju einasta skrefi, við þurfum að styrkja stöðu okkar til dæmis gagnvart landslagsmati. Við þurfum að styrkja stöðu okkar gagnvart mati á þjónustu vistkerfa og við þurfum að styrkja sýn okkar að því er varðar greiningu á samfélagsáhrifum einstakra inngripa, hvort sem það eru virkjanir, ferðaþjónusta eða önnur gerð nýtingar.

Þetta er allt saman áskorun. Sem betur fer erum við ekki í samfélagi sem segir að við höfum í eitt skipti fyrir öll endanleg verkefni í höndunum, það höfum við ekki, og þaðan af síður endanleg verkfæri í höndunum. Við vöndum okkur í hverju skrefi, það er ástæðan fyrir því að við hæstv. iðnaðarráðherra gáfum okkur tíma í að fara yfir 225 athugasemdir sem okkur bar að gera, ekki bara samkvæmt lögunum heldur samkvæmt nýsamþykktum Árósasamningi sem leiddur var hér í lög. Okkur ber að hlusta á almenning og samtök almennings, sérstaklega þeirra sem láta sig náttúru og umgengni við hana varða. Við eigum að fagna því að við erum að draga úr stýringu á samfélaginu sem miðar við að ákvarðanir séu teknar í fámennum hópum og niðurstaðan liggi fyrir án þess að almenningur eigi þar aðkomu. Það er mikilvægt.

Frú forseti. Íslensk náttúra og virðing við hana þarf og á að vera okkur öllum hér leiðarljós við úrvinnslu þessa máls eins og annarra sem varða náttúruna og ráðstöfun hennar. Við höfum hana að láni frá börnunum okkar.