140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:42]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er áhugavert í sjálfu sér og gefur tilefni til þess að snúa þessu andsvari við en vegna þess að við höfum knappan tíma hér verður það ekki hægt. Mér finnst áhugavert í sjálfu sér hvar hv. þingmaður stillir upp forgangsröðun þegar náttúran er annars vegar, sjálfbær þróun og hagsmunir komandi kynslóða. Mér fyndist það í sjálfu sér áhugavert.

Varðandi fulltrúa ráðherra í verkefnisstjórninni tel ég mjög mikilvægt að það ríki trúnaður á milli ráðherra og fulltrúa hans hverju sinni og sé ekki ástæðu til að gera neinar athugasemdir við það.

Varðandi umræðuna um vatnsaflskostina er auðvitað mjög mikilvægt að huga að því að við Íslendingar höfum nú þegar virkjað um tvo þriðju hluta vatnsaflskosta í landinu og það er til dálítillar umhugsunar, sérstaklega með tilliti til þess í hvaða stöðu umræddar komandi kynslóðir verða gagnvart því að vilja hugsanlega ráðstafa vatnsafli með einhverjum öðrum hætti en (Gripið fram í.) að virkja þá. Það er rétt athugað hjá hv. þingmanni að þessi tillaga gerir ráð fyrir að vatnsaflið sé ekki í nýtingarflokki nema að mjög litlu leyti og það á sér í raun og veru algjörlega eðlilegar skýringar sem hér hefur verið farið kirfilega í.

Mér finnst líka mikilvægt þegar þingmaðurinn er að leggja hér til eitthvað sem hann kallar nýtingarflokk í bið eða eitthvað slíkt að við stillum þessu upp út frá heildarsýn en ekki því að rammaáætlun sé í sjálfu sér einhvers konar hlaðborð fyrir virkjunarfyrirtæki.