140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:46]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Tillagan sem hæstv. iðnaðarráðherra leggur fram í samráði við umhverfisráðherra er í samræmi við lögin, þ.e. tillagan eins og hún er lögð fram til umsagnar og síðan byggja breytingarnar á þeim umsögnum sem okkur ber að skoða og taka tillit til.

Mig langar til að halda því til haga hér af því að hv. þingmanni er heitt í hamsi út af þessari umræðu, sem er eðlilegt vegna þess að hér erum við að tala um að lenda mjög löngu ferli, við erum að tala um það í raun að Alþingi nái að lenda hér 13 ára ferli sem er mjög langt. Við skulum líka halda því til haga að þar af erum við að tala um 10 ár þar sem Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur stýrðu landinu. Við skulum enn fremur halda því til haga að allan þann tíma var mikill ófriður vegna nákvæmlega ágreinings um nýtingu og vernd. Þetta hefur í raun og veru verið sú erfiðasta víglína sem verið hefur í íslenskum stjórnmálum um árabil og valdið miklum sárindum og mikilli togstreitu. Þeir flokkar báru ekki gæfu til þess að stilla til friðar í þeirri sundrungu heldur völdu ófriðinn, því miður. Ég vil árétta það að ég tel að þessi tillaga geti orðið grundvöllur sátta ef menn bera gæfu til þess að horfa til lengri framtíðar. Og ég fagna öllum náttúruverndarsinnum, líka náttúruverndarsinnum í Framsóknarflokknum sem vilja leggja lóð á þær vogarskálar.