140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:48]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra þriggja spurninga og ég bið hæstv. ráðherra að svara skýrt vegna þess að ég hef ekki tækifæri til að fylgja spurningum mínum eftir eins og fyrirkomulagið er á þessum andsvörum. Í fyrsta lagi kemur það fram hjá hæstv. ráðherra að nú eigi að skipa nýja verkefnisstjórn og þá segir hæstv. ráðherra að sú verkefnisstjórn eigi að taka tillit til þátta sem ekki hefur verið horft til og tíundar það síðan í ræðu sinni. Eins og ég skildi þetta var hæstv. ráðherra að leggja málin þannig upp að taka eigi tillit til þátta sem muni væntanlega leiða fremur til þess að það fjölgi í verndarflokknum. Þær virkjanir sem núna eru í biðflokki muni þá fremur fara í verndarflokk en nýtingarflokk. Getur hæstv. ráðherra ekki tekið undir það, er þetta ekki boðskapurinn? Er ekki hæstv. ráðherra í raun og veru að segja að það sé mikilvægt að fjölga í nýtingarflokknum af ástæðum sem hæstv. ráðherra fór yfir áðan?

Í annan stað hefur því verið haldið fram að þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar, að færa tilteknar virkjanir úr nýtingarflokki í biðflokk, muni ekki hafa nein teljandi áhrif á möguleika manna til framkvæmda. Þetta muni í mesta lagi, eins og hefur verið fullyrt, valda fresti á ákvörðun í tvö ár. Er hæstv. umhverfisráðherra sammála því, mun þetta þýða að innan tveggja ára, að lágmarki, verði búið að taka ákvarðanir varðandi biðflokkinn?

Í þriðja lagi segir hæstv. ráðherra að með þessu uppleggi ríkisstjórnarinnar sé verið að byggja á varúðarsjónarmiðum. Þá spyr ég: Telur hæstv. ráðherra að sú vinna sem fram fór fram að því að hæstv. ríkisstjórn fékk þessi mál í hendurnar hafi ekki verið byggð á varúðarsjónarmiðum heldur einhverjum öðrum sjónarmiðum sem hafi þá verið andstæð varúðarsjónarmiðunum?

Ég vil svo segja að lokum að það er mikil ástæða til að vanda sig í þessu máli. Það skiptir miklu máli vegna þess að við erum að fara í fyrsta skipti inn í þetta nýja ferli og ég segi bara eins og er, og það hefur komið fram í þessari umræðu, að eins og á málum hefur verið haldið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar (Forseti hringir.) hefur það valdið tortryggni. Það er rangt (Forseti hringir.) sem hæstv. ráðherra sagði að fyrrverandi ríkisstjórnarflokkar hafi valið ófriðinn, þeir völdu að fara (Forseti hringir.) einmitt þá sáttaleið sem felst í þeirri áætlun sem við erum að ræða hér núna.