140. löggjafarþing — 85. fundur,  18. apr. 2012.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

727. mál
[19:50]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi hlutverk og verkefni nýrrar verkefnisstjórnar þá liggur náttúrlega fyrir, eins og ég rakti áðan, að meginmarkmiðin eru að tryggja að allar upplýsingar og öll sjónarmið liggi fyrir. Við erum sem betur fer alltaf að stíga skref í átt til frekari þekkingar og betri aðferða, skýrari sýnar o.s.frv. og ég vænti þess að þingmaðurinn deili því með mér að vilja sífellt leita leiða til þess að tryggja enn betur að ákvarðanir okkar byggi á þekkingu og það á auðvitað við um verkefnisstjórn fyrir rammaáætlun 3.

Varðandi spurningu tvö … (Gripið fram í.) Þetta leiðir til þess, virðulegur forseti, að styrkja og efla varúðarsjónarmið. Í öðru lagi spurði hv. þingmaður um hvort þetta þýddi bið eða frest á einhverju. Það sem ég vil segja í þeim efnum er að gert er ráð fyrir að það líði fjögur ár að hámarki áður en lagðar eru fram nýjar tillögur. Það kemur hins vegar ekki í veg fyrir að allir kostir séu skoðaðir. Við gerum ráð fyrir að ný verkefnisstjórn hefjist handa mjög snemma. En vegna þess hvernig hv. þingmaður orðaði spurningu sína vil ég geta þess að það sem hér er talað um, miðað við þessa tillögu, að sé orkunýtingar og í orkunýtingarflokki gerum við ráð fyrir að sé hartnær helmingur af því sem þegar er virkjað á Íslandi þannig að láta eins og hér sé um rýran kost fyrir nýtinguna að ræða er algjörlega fráleitt.

Varðandi varúðarsjónarmiðin þá er það svo að í umsagnarferlinu komu fram nýjar upplýsingar sem (Forseti hringir.) gerðu það að verkum að við ákváðum á grundvelli þeirra upplýsinga að byggja á varúðarsjónarmiðum enn frekar (Forseti hringir.) í framlagningu og mótun okkar tillögu.