140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB og makríldeilan.

[10:31]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra en einkum og sér í lagi til hv. varaformanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem er reyndar sama manneskjan.

Nú berast fréttir nánast daglega af samskiptum okkar við Evrópusambandið. Fyrst komu fregnir af meðalgöngu Evrópusambandsins í Icesave-málinu fyrir nokkrum dögum, síðan hótanir um viðskiptaþvinganir vegna makríldeilunnar og nú síðast í gær bárust fréttir af óskum Evrópuþingmanna um viðræðuslit við Ísland vegna makríldeilunnar.

Mig langar til að spyrja hv. varaformann Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hvað henni finnist um þessi samskipti, hvernig henni finnst framkoma Evrópusambandsins og Evrópuþingsins í okkar garð og þá einkum með tilliti til þeirra aðildarviðræðna sem við stöndum í. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hún sé sammála orðum formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sem hann lét falla fyrir einhverjum dögum síðan um að makríldeilan og aðildarviðræðurnar væru óskyld mál þvert á það sem virðist vera álit Evrópuþingmanna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvað henni finnist um það í ljósi þeirra aðildarviðræðna sem við stöndum í. Telur hæstv. ráðherra að við eigum að halda þeim áfram eins og ekkert hafi í skorist eða gefur þetta tilefni til að slíta þeim viðræðum eða leggja þær til hliðar?