140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB og makríldeilan.

[10:33]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég hef verið þeirrar skoðunar hingað til að rétt sé að halda þeim samningaviðræðum sem við Íslendingar höfum átt í um makrílmálið, sem hv. þm. Ragnheiður E. Árnadóttir vísaði í, utan við aðildarviðræðurnar. Hins vegar er alveg ljóst að við þurfum að vera mjög á verði og vakandi gagnvart hagsmunum Íslendinga í þessu stóra máli. Þótt ég hafi ekki kynnt mér það í þaula skilst mér að það hafi verið sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins sem hafi lagt til að þessum aðildarviðræðum yrði frestað eða þær settar á ís. Hv. þingmaður spyr um afstöðu mína til þess hvort þetta séu skyld mál og hvort horfa skuli á þau í samhengi. Ég held að rétt sé að við fylgjumst með og metum í hvert einasta sinn hvort við teljum að slík mál hafi áhrif á aðildarviðræðurnar.

Nú liggur fyrir að ekki er búið að opna kaflann um sjávarútvegsmálin í aðildarviðræðum við ESB. Við þurfum að fá fram umræður í þeim efnum því að ég tel mikilvægt að þjóðin eigi að lokum síðasta orðið í þessum málum og þá er áríðandi að afstaða Evrópusambandsins liggi fyrir hvað það varðar. Ég tel ekki ólíklegt að makrílmálið eigi eftir að koma upp þarna, það er kannski ekki enn tímabært að segja til um það en miðað við stöðuna eins og hún er núna gæti makrílmálið átt eftir að spila inn í þessi mál.