140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

aðildarviðræður við ESB og makríldeilan.

[10:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Það er mín eindregna afstaða og ég held að ég deili henni með flestum hv. þingmönnum að við eigum að sjálfsögðu að vera föst fyrir þegar kemur að hagsmunum okkar og sjávarútvegsmálin eru auðvitað eitt stærsta hagsmunamál okkar í þessum viðræðum. Ég lít svo á að við séum einmitt að verja hagsmuni okkar því að staðan í makríldeilunni sýnir að við erum föst fyrir í þeim samningaviðræðum. Þar hafa verið haldnir tíu samningafundir og viðsemjendur okkar kvarta undan því að þeir komist ekkert áfram með Íslendinga. (Gripið fram í.) Ég held því að það sé mjög mikilvægt að við verjum þessa hagsmuni, ég lít svo á að það sé áríðandi að við gerum það í makríldeilunni og í aðildarviðræðunum þegar kemur að því að skoða sjávarútvegsmálin, sem ég held að flestir hv. þingmenn séu sammála um að séu meðal mikilvægustu hagsmunamála okkar.

Eins og ég sagði áðan held ég að það sé líka mikilvægt að við komumst í þær viðræður og skoðum sviðið breitt.