140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

kjarasamningar smábátasjómanna.

[10:44]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vildi beina til hæstv. velferðarráðherra fyrirspurn sem lýtur að kjarasamningum smábátasjómanna. Sú staða er uppi að smábátasjómenn á bátum sem eru undir 30 tonnum að stærð hafa verið samningslausir í um áratug.

Á sínum tíma var búið að gera samning en hann var felldur af útgerðinni með þeim afleiðingum að smábátasjómennirnir búa við mikið ósamræmi eftir stærð báta. Það er mjög óheppilegt og óþolandi ástand út frá réttindum. Á fundum mínum með smábátasjómönnum um þetta mál undanfarið hafa þeir haldið því fram að þessi staða geri það að verkum að kjörum þeirra sé haldið niðri og á rétt þeirra gengið, m.a. í gegnum verð á aflanum og skiptaprósentuna, þannig sé hægt að halda niðri launum þeirra sem hafa staðið í stað meira og minna í tæpan áratug, meira og minna allan þann tíma sem þeir hafa verið samningslausir.

Það er auðvitað óþolandi staða að stétt manna sé samningslaus árum og jafnvel áratugum saman út af því að ekki nást samningar við viðsemjendur og þá sem gera bátana út. Lausnin felst í því, eða getur falist í því að mínu mati, að setja lög um að ekki sé heimilt að þinglýsa kvóta á smábát nema fyrir liggi samþykktur kjarasamningur. Þetta er mjög afdráttarlaus og skýr leið sem löggjafinn getur komið inn í með og hoggið á hnútinn í mikilvægri grundvallarréttindabaráttu stéttar manna í samfélaginu. Við eigum ekki að líða það eða þola að gengið sé á rétt tiltekinna stétta eða nokkurra hópa eins og gerist með þessum hætti þegar fólkið er samningslaust.

Lausnin getur því falist í því að hingað komi frumvarp sem þingið samþykki um að ekki sé heimilt að þinglýsa kvóta smábáta nema fyrir liggi samþykktur kjarasamningur og ekki sé hægt að spila á kjör þessara manna þannig að eftir því sem fiskverð hækkar sé skiptaprósentan lækkuð.

Því spyr ég hæstv. velferðarráðherra sem fer með vinnumarkaðsmál hvort það komi til álita að skoðað verði að fara þessa lagasetningarleið til að leysa (Forseti hringir.) þennan vanda.