140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

kjarasamningar smábátasjómanna.

[10:46]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson spyr um ráðningarkjör og kjarasamninga hjá smábátasjómönnum og spyr mig þá sem vinnumarkaðsmálaráðherra. Ég verð að viðurkenna að þessi mál hafa ekki komið upp á vettvangi ráðuneytisins eða í tengslum við vinnuna þar. Aftur á móti hafa þau komið töluvert mikið upp bæði í kringum sjávarútvegsmálin og vinnuna upphaflega í svokallaðri sáttanefnd sem stundum er kölluð eða samstarfshópi sem skipaður var í upphafi kjörtímabils þessarar ríkisstjórnar með aðilum allra hagsmunaaðila í sambandi við sjávarútveg. Þar kom þetta mjög sterkt fram sem ósk og þetta hefur líka verið rætt í sambandi við nýtingarleyfin, varðandi sjávarútvegsfrumvörpin, að það verði eitt af skilyrðunum í sambandi við nýtingarleyfi að viðkomandi sé með löggilta kjarasamninga til að fá úthlutun á aflaheimildum. Það verður líka í skilyrðinu að slíkir samningar séu í gildi svo menn missi þá ekki þann kvóta sem þeir hafa fengið.

Það hefur verið töluvert mikil umræða um þetta eins og hv. þingmaður bendir á og menn hafa vakið athygli mína á því að sjómenn hafa einmitt gengið í stéttarfélög undanfarið vegna þess að þeir treysta á að þetta komi inn í nýtingarleyfin eða að þannig verði gengið frá því að það sé klárt að þetta sé ein af þeim lagalegu forsendum sem þurfa að vera í lagi til að vera handhafar nýtingarréttar á auðlind þjóðarinnar.

Ég bind miklar vonir við að við finnum flöt á þessu í sambandi við vinnuna við sjávarútvegsmálin. Ég held að það sé afar mikilvægt að við göngum þannig frá því að þegar við erum að ganga frá því hvernig menn hafa nýtingarheimildir eða leyfi til að nýta þjóðarauðlind okkar sé skýlaus krafa um að fylgt sé lögum og reglum sem samfélagið setur á hverjum tíma.