140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

kjarasamningar smábátasjómanna.

[10:48]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því eindregið hvernig hæstv. ráðherra tekur í þetta mál og þar sem hann fór fyrir vinnunni á sínum tíma um breytingar á stjórnkerfi fiskveiða er ánægjulegt að heyra að þetta mál hafi komið þar upp í umræðu og komi vel til greina núna þegar Alþingi fjallar um þessi stóru mál að skilyrða nýtingarleyfið við það að fyrir liggi gerður kjarasamningur. Þetta er langskýrasta og besta leiðin til að tryggja rétt sjómannanna gagnvart útgerðinni og stórt skref í réttindabaráttu þeirra.

Ég beini því til hv. formanns atvinnuveganefndar og annarra þingmanna sem eru með þetta mikla mál í vinnsluferli akkúrat núna að skoða mjög rækilega og vandlega að fara þessa leið þannig að við leysum það vandamál sem núna hefur verið uppi í heilan áratug, að smábátasjómenn hafi verið samningslausir og verulega á rétt þeirra og kjör gengið allan þann tíma. Það er óþolandi staða og hana þarf að leysa. Nú er einstakt tækifæri til að gera það á Alþingi (Forseti hringir.) með mjög afdráttarlausum og skýrum hætti.