140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

launajafnrétti.

[10:55]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það gleður mig að verið sé að vinna þétt að því að koma þessari jafnréttisvottun á. Ég held að það hljóti að geta gengið eitthvað hraðar. Allt það sem við gerum, það sem sett hefur verið í lög, líka það að hafa jafnmarga stjórnarmenn í fyrirtækjum karla og konur, er þvingað ofan frá. Hættan sem hefur verið bent á, m.a. af mér, er að þegar á að fara að kjósa fólk í stjórnir fyrirtækja af því að það er af ákveðnu kyni gæti það verið mjög neikvætt fyrir viðkomandi persónu. Ég geri ráð fyrir því að flestir vilji vera kosnir í stjórnir vegna þess að þeir hafi hæfileika og getu til þess að gegna starfinu.

Það sem lagt er til í þessari jafnréttisvottun er að fyrirtækin sjálf óski eftir því að fá vottun frá vottunarstofu um að þau sinni jafnrétti til ráðninga, bæði jafnrétti milli kynja og jafnrétti milli fólks. Það kemur þá neðan frá og það yrði miklu meiri hvati til að standa sig en endalausar jafnréttisáætlanir.