140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

fjölgun framhaldsskóla.

[11:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Í fyrra svari mínu nefndi ég ekki Menntaskólann við Sund heldur Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem búið var að ákveða að fara í viðbyggingu og er nú verið að skoða hvort hugsanlega sé hægt að taka þau plön upp. Það snýr að suðvestursvæðinu þannig að það kann að hafa einhver áhrif á stöðuna þar.

Ég ítreka það sem ég sagði: Ég held að mikilvægasta verkefnið núna sé að vinna að innleiðingu laga og námskráa. Ég held að það sé stóra verkefnið í málefnum framhaldsskólans en við erum að sjálfsögðu að skoða þörfina fyrir fleiri framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum að þar kreppir skórinn að, við sjáum það í innritunartölum ár eftir ár. Þar skiptir líka mjög miklu hvað fram undan er í starfsnáminu. Ég vek athygli þingmanna á því að við erum að fara yfir nýskipan í starfsnámi, af því að það er í fréttum í dag, það er áhugaverð ráðstefna á mánudaginn. Ég held að það skipti mjög miklu að við náum að taka höndum saman um að koma fólki á betri og skilvirkari hátt í gegnum kerfið eins og hv. þingmaður segir. Það tengist líka því hvernig við getum spornað við brottfallinu sem við höfum líka rætt. Ég held að það sé stóra verkefnið, en að sjálfsögðu erum við með það í huga að horfa til framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu til lengri tíma ef við metum að þörf sé á því þegar þessar breytingar komast í framkvæmd.