140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:25]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hvað varðar gagnkvæma viðurkenningu á námi milli norrænna ríkja styð ég það að sjálfsögðu. Hins vegar þurfum við auðvitað að skoða hvert fag fyrir sig, þ.e. mér finnst eðlilegt að þeir sem eru fagmenn í hverri grein, hvort sem það eru heilbrigðisgreinar eða löggiltar iðngreinar, fái tækifæri til að fara yfir námskrá hverrar greinar. Þetta hefur yfirleitt gengið vel þar sem það hefur verið gert. Þetta hefur til að mynda, af því að hv. þingmaður spyr um það, verið til umræðu innan heilbrigðisgeirans hjá norrænu menntamálaráðherrunum. Ég vænti þess að tillaga hv. þingmanns muni koma þangað líka til umfjöllunar. Gagnkvæm viðurkenning er eitthvað sem ég tel mjög mikilvægt að gangi í gegn. Þetta höfum við auðvitað gert, ekki bara innan Norðurlanda heldur líka á milli evrópskra ríkja. Þetta er því að mínu viti mjög jákvætt skref þó að það sé auðvitað mikilvægt að ólíkar greinar séu alltaf skoðaðar ef einhver munur er á menntunarkröfum að baki þeim.

Hvað varðar brottvísunarmálið fór sameiginlegt bréf frá norrænu velferðarráðherrunum til Dana þar sem skýringa er krafist á því máli. Þar hefur því í raun náðst samstaða um að fá úr þessu skorið og fá frekari skýringar á málinu. Ég held að svör Dana hafi ekki enn borist, samkvæmt upplýsingum frá hæstv. ráðherra, enda bréfið nýlega farið, en þetta er mál sem norrænu þjóðirnar hafa náð saman um að krefjast skýringa á.