140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:26]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir jákvæðar undirtektir við gagnkvæmri viðurkenningu á menntun. Auðvitað er mikilvægt að það sé faglega og vel yfir námið farið og sömuleiðis rétt hjá ráðherranum að gagnkvæm viðurkenning skiptir ekki síður máli í heilbrigðisgeiranum til að tryggja hreyfanleika vinnuafls á Norðurlöndunum og okkar fólki atvinnutækifæri sem víðast og í sem mestum mæli.

Ég vil hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja fast eftir þeim mótmælum sem sett hafa verið fram vegna brottvísunarmálsins í Danmörku. Það er algerlega óviðunandi að eitt ríkið ákveði einfaldlega að hunsa samningana. Full samstaða er um það í Norðurlandaráði að gagnrýna þá framgöngu og sömuleiðis er greinilega gengið eftir því hjá norrænu velferðarráðherrunum. Ég hvet einfaldlega okkar fólk til að leggja lóð sitt á vogarskálarnar þar, hér eftir sem hingað til.

Ég vil að lokum spyrja hæstv. ráðherra varðandi námsmenn af því hann er líka ráðherra menntamála. Mér virðist þegar maður skoðar yfirlit um landamærahindranir að býsna mikið af þeim tengist námsmönnum. Ráðherra reifaði réttilega þau vandamál sem sköpuðust með inngöngu í sænska háskóla, en maður sér líka að misbrestur er á ýmsum réttindum varðandi fæðingarorlof, ekki bara í Svíþjóð heldur milli annarra norræna ríkja einnig. Einnig má nefna réttindi fólks sem er á vinnumarkaði en á maka í námi og ýmislegt af því tagi, þar sem fólk virðist geta dottið á milli kerfa eða orðið milli skips og bryggju — það er hvergi framfærsluskylda á þeim. Þetta eru réttindi sem tengjast ungu norrænu fólki sem er í námi í öðru landi.

Ég vildi spyrja ráðherrann hvort hann teldi tilefni til að fara sérstaklega yfir þetta og hvort stúdentahreyfingin hafi gert, sú íslenska eða sú norræna, athugasemdir við ráðherrann eða norrænu ráðherrana.