140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir ræðu hennar.

Það sem ég mundi vilja spyrja að er í vissu framhaldi af því sem hv. þm. Helgi Hjörvar kom inn á og tengist því sem ráðherrann talaði um, að það væru að koma upp nýjar hindranir í tengslum við innleiðingu ESB-tilskipana eða Evrópusambandstilskipana sem við þurfum að innleiða hér í tengslum við EES-samninginn. Eitt dæmið sem fjallað er um á vef Norðurlandaráðs tengist því að verkmenntun hjá sænskum lækni er ekki metin þegar kemur að því að starfa í Finnlandi. Viðkomandi læknir þarf þá annaðhvort að afla sér aftur þessarar starfsþjálfunar eða fara í nám upp á nýtt.

Nú starfa mjög margir íslenskir læknar í Svíþjóð. Það kom fram í þessari frétt að Svíar væru að skoða það að innleiða sömu tilskipun eða reglur og Finnar voru að gera. Þá stoppar maður náttúrlega við það hvort ekki sé nauðsyn að auka norrænt samstarf um innleiðingar á þessum Evrópusambandstilskipunum. Óháð umræðunni um hvort Ísland eða Noregur muni einhvern tímann ganga í Evrópusambandið erum við að innleiða mjög stóran hluta af því regluverki sem Evrópusambandið setur. Ég held að við sjáum bara á þessu dæmi hvað skiptir miklu máli að meira samstarf sé á milli Norðurlandanna í því hvernig tilskipanirnar eru innleiddar í innlenda löggjöf.

Ég vil gjarnan heyra afstöðu ráðherrans hvað það varðar.