140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:32]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er mjög góð spurning hjá hv. þingmanni. Ég held að það sé full þörf á slíku samstarfi því að eins og hv. þingmaður bendir réttilega á höldum við væntanlega ekki aðeins áfram að innleiða nýjar og nýjar tilskipanir, heldur höldum við áfram að endurskoða lagaumhverfi okkar.

Við höfum tekið upp þá nýbreytni á Norðurlöndum að þegar frumvörp eru lögð fram af hálfu stjórnvalda sé búið að rýna þau til að skapa ekki nýjar norrænar landamærahindranir. Þetta hefur í öllu falli verið gert hér á landi. Hins vegar eru þær ekki alltaf fyrir séðar þannig að þótt reynt sé að komast fyrir þær með þessum hætti geta þær samt komið upp því að ekki er alltaf fyrirsjáanlegt hvað skapast í þessum efnum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við horfum á það.

Þeim vettvangi um landamærahindranir sem ég nefndi hérna áðan, þ.e. Grensehindringsforum, er auðvitað ætlað að tryggja þetta samstarf. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort þurfi jafnvel að auka vægi þess vettvangs með einhverjum hætti. Þetta hefur reynst vel. Ég velti fyrir mér hvort þeir stjórnmálamenn sem eru starfandi hér og nú þurfi að koma að málinu með formlegri hætti.

Ég lít á þetta sem góða ábendingu frá hv. þingmanni.