140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:34]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir hennar svör og undirtektir.

Þegar ég bjó í Svíþjóð fyrir um 20 árum voru Svíar einmitt að ræða það að ganga þarna inn og gengu síðan inn 1992 að mig minnir. Ritgerðin sem ég skrifaði þá fjallaði um það hvaða áhrif aðild Svíþjóðar og hinna ríkjanna mundi hafa á norrænt samstarf. Menn höfðu töluverðar áhyggjur af því. Sem betur fer sér maður núna 20 árum seinna að enn er mikill áhugi hjá Norðurlöndunum að hafa þetta sterka samstarf. Eins og við vitum er það alveg einstakt raunar og nær mun lengra aftur en kannski flest annað svæðissamstarf í heiminum.

Þess vegna er verulegt áhyggjuefni þegar maður sér að Evrópusambandið er að einhverju leyti að gera það að verkum að upp koma stjórnsýsluhindranir, landamærahindranir, sem við ætlumst ekki til. Það er ekki endilega vilji þinga í hverju landi fyrir sig þegar þau innleiða þetta að það verði hindrun í samstarfinu á milli Norðurlandanna, en það gerist hins vegar.

Síðan það sem ráðherrann benti líka á, að oft virðist þetta tengjast þeim upplýsingum sem við erum að koma á framfæri við þá sem flytja á milli landa. Ég held að eitt af því sem við þurfum líka að velta mjög vel fyrir okkur sé hvernig við getum aukið upplýsingaflæði og tryggt að þeir sem taka ákvarðanir innan einstakra stofnana geri það eins vel og þeir mögulega geta og hafi sem bestar upplýsingar.

Þess vegna staldraði ég aðeins við í svari hv. ráðherra áðan varðandi viðurkenningu á starfsmenntun eða menntun á milli landa. Ég held að það sé mjög brýnt að við viðurkennum sem mest af þeirri menntun sem við öflum okkur á milli landa þannig að það sé alveg tryggt að Íslendingar sem ákveða að fara t.d. til náms (Forseti hringir.) í Danmörku eða Svíþjóð viti að sú menntun gildi hér og öfugt.