140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[11:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir það. Fyrst og fremst er fyrirvari minn sá að það sé gert með þeim faglega hætti sem ég vísaði til hér áðan, þ.e. að við gerum það í góðri samvinnu við þær fagstjórnir sem eiga hlut að máli hverju sinni. Ég held þetta ætti að vera mál sem ætti oftast að vera auðvelt að leysa.

Hvað varðar síðan hið formlega samráð sem hv. þingmaður nefnir um landamærahindranir lít ég svo á að þessi umræða sé til þess ætluð m.a. að ég geti komið ábendingum okkar á framfæri við samstarfsráðherrana. Ég mun gera það með þessa ábendingu. Kannski er rétt að það sé hreinlega ákveðin skýrslugjöf á hverju ári á hverju þjóðþingi, að það verði fastur liður, og að sama skapi verði teknar upp á vettvangi samstarfsráðherra og á Norðurlandaráðsþingi þær framfarir sem verða og þau nýju vandamál sem koma upp. Hugsanlega þarf því að formbinda þetta með einhverjum hætti.

Það væri kannski áhugavert síðan að heyra í hv. formanni Íslandsdeildar hér á eftir um þetta. Ég held að þarna þurfi að koma saman framkvæmdarvald, þ.e. ráðherrar og þingið, og Norðurlandaráð sem er ekki síður, finnst mér, á vaktinni í þessu máli.