140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:38]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu þar sem hann tæpti á mörgum mikilvægum málefnum sem ég mun í umboði mínu sem menntamálaráðherra taka upp líka á þeim vettvangi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við sinnum þeim málum saman, bæði menntamálanefnd Norðurlandaráðs og norrænu ráðherrarnir.

Mig langaði sérstaklega að koma að því sem hv. þingmaður nefndi síðast í ræðu sinni, um tungumálin. Að þeim málum hefur verið sérstaklega mikið unnið innan norrænu ráðherranefndarinnar með sérstökum átaksverkefnum þar sem raunar hefur fyrst og fremst verið horft á skilning milli norsku, sænsku og dönsku þar sem Íslendingar og Finnar hafa verið á jaðrinum og Finnar náttúrlega heldur meira en Íslendingar. Þeir tala tungumál sem er af öðrum uppruna, finnsk-úgrískum uppruna, á meðan við hin tölum öll tungumál af norrænum uppruna, þó að íslenskan hafi þar sökum hægfara þróunar breyst minna en hin málin.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því í ljósi þess átaks sem farið var í sem er sérstök vitundarvakning um nauðsyn þess að tryggja kennslu í norrænum tungumálum milli landanna, sem ég tek undir með hv. þingmanni að er mjög mikilvægt í ljósi þess að þangað sækjum við Íslendingar til að mynda nám og störf, hvort hann sjái einhverjar nýjar leiðir þar. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns en veit líka að að þessu hefur mikið verið unnið og ýmsar leiðir reyndar. Ég vil því inna hv. þingmann eftir því hvort hann sjái eitthvað sérstakt fyrir sér í þessum efnum sem ráðherranefndin og ráðið geti tekið upp.