140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:40]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Þetta er viðfangsefni sem ég tel mjög mikilvægt að við sinnum á næstunni. Ég bý að sjálfsögðu ekki yfir neinni patentlausn í þessu efni og er ekki viss um að þær séu endilega til, vafalaust væri búið að finna þær upp ef svo væri. Ég tel svona almennt séð að mikilvægt sé að styrkja kennslu í norrænum málum innan allra Norðurlandanna, líka hér á landi, og þá ekki endilega bara í dönsku heldur líka í öðrum tungumálum og það þurfi að koma inn í dönskukennsluna að menn fái smáinnsýn í bæði norsku og sænsku.

Ég vil líka nefna fjölmiðlunina. Það skiptir máli hvernig fjölmiðlun er háttað og upplýsingamiðlun annars staðar á Norðurlöndunum. Sú spurning hefur líka verið til umfjöllunar, m.a. á vettvangi menningarmálanefndar Norðurlandaráðs, hvort nýta ætti sjónvarp í ríkari mæli fyrir efni frá öðrum Norðurlöndum sem væri á því tungumáli. Þar hafa menn talað um að mikilvægt sé til dæmis fyrir Dani að geta horft á sænskt efni með sænskum texta, að dönsk eða norsk börn þurfi ekki endilega að horfa á Línu langsokk „dubbaða“ heldur geti jafnvel hlustað á hana á frummálinu og jafnvel með textun á því máli líka, þannig að fólk fái þjálfun í að hlusta og lesa hin málin. Þetta getur auðvitað líka átt við hér á landi.

Menn hafa rætt um nánara samstarf á milli norrænu ríkissjónvarpanna varðandi efni og annað slíkt. Nú veit ég ekki hve menn vilja hafa mikla miðstýringu í því efni, það er sjálfsagt ekki alltaf mjög vinsælt, en ég held að hægt væri að hugsa sér einhvers konar rammasamning eða viljayfirlýsingu á milli landanna um að reyna að auka þann þátt í efni sem kemur frá ríkisfjölmiðlunum. Það mundi áreiðanlega (Forseti hringir.) verða liður í því að bæta og auka þekkingu á tungumálum hinna.