140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:42]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Mér fannst hann nefna mjög mikilvægt atriði sem eru fjölmiðlarnir. Þá hefur ekki sérstaklega borið á góma hér í dag en við höfum stundum rætt norrænt sjónvarpsefni hér í þingsal því að það liggur fyrir að þetta er mjög vinsælt efni, til að mynda hjá íslenskum áhorfendum en líka á milli annarra norrænna ríkja. Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að skoða sérstaklega. Uppi hafa verið hugmyndir um norræna sjónvarpsstöð sem sýni efni frá norrænu almannaþjónustumiðlunum, ríkisfjölmiðlunum. Hugsanlega má fara aðrar leiðir í þeim efnum og greiða til að mynda fyrir aðgangi íbúa Norðurlandanna að ríkisfjölmiðlum hinna landanna með einhverjum hætti, því það ætti í sjálfu sér að vera hægt með þeirri tækni sem við búum yfir í nútímanum að greiða fyrir þeim aðgangi.

Áhyggjur mínar snúast um það og maður skynjar það á mörgum nemendum í íslenska skólakerfinu að þeir sjá ekki tilganginn með því að læra norrænt tungumál og telja sig komast allra sinna ferða í heiminum með enskuna að vopni. Þetta er áhyggjuefni, tel ég, hreinlega út frá menningarlegum sjónarmiðum því að fjölbreytni tungumálanna er mjög mikilvæg í sjálfu sér, hún stuðlar að fjölbreytni í menningarheiminum sem er einmitt það sem við viljum sjá. Þannig að af menningarlegum orsökum eingöngu er þetta mikilvægt en það skiptir líka máli að geta bjargað sér sem víðast í heiminum. Eins góð og ágæt og enskan er skiptir samt máli að geta fengið aðgang að fleiri menningarheimum, ekki síst fyrir okkur á hinu örlitla málsvæði hér, 300 þúsund ríflega.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið um fjölmiðlana. Ég held að þetta sé eitthvað sem við eigum að ræða áfram á norrænum vettvangi.