140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[12:54]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir að flytja okkur þessa skýrslu. Ég tel það vitnisburð um samstarf Norðurlandanna að við skulum geta haft dagskrá á öllum Norðurlöndunum um þetta leyti sem fjallar um sama efni. Ég tel að það sé einsdæmi að hægt sé að koma á slíkri samvinnu. En það er ekki nóg. Orð eru til alls fyrst og mikilvægt að halda áfram þeirri vinnu sem staðið hefur um nokkurt skeið, allt frá árinu 2007 þegar sett var á laggirnar sérstök nefnd til þess að fjalla um og höndla það verkefni sem við erum að fjalla um núna, þ.e. landamærahindranir innan Norðurlandanna og þá í víðasta skilningi.

Hér er ég með undir höndum nýútkominn upplýsingabækling frá upplýsingamiðlunarveitu Norðurlandanna sem heitir Hallo Norden, eða Halló Norðurlönd, sem veitir í gegnum netið upplýsingar um réttindi fólks og leiðbeiningar til fólks sem vill flytjast á milli Norðurlandanna um hvaða leiðir það eigi að fara og hvað þurfi að athuga áður en flutt er á milli Norðurlandanna.

Í þessum litla bæklingi sem er nýútgefinn, Sagan af Jyrki og Jóhönnu, segir frá lífi venjulegrar fjölskyldu á Norðurlöndunum með landamæri. Þetta er ungt fólk af finnskum og íslenskum ættum sem flytur sig á milli Norðurlandanna eftir atvinnu og námi. Þau reka sig á, eins og rakið er í bæklingnum, á hindranir hvað varðar námslán, foreldragreiðslur, starfsréttindi, atvinnuleysistryggingar, endurhæfingu, sjúkragreiðslur og örorkubætur. Þetta er allt rakið hér í lítilli trúverðugri sögu sem gæti verið úr lífi hverrar fjölskyldu.

Nú er það svo að heimurinn breytist og við með. Fólk flytur sig miklu meira á milli landa og ferðast miklu meira en bara fyrir 30, 40 árum síðan. Núna þykir ekki tiltökumál að leita eftir atvinnu og möguleikum út um allan heim, hvað þá að skreppa hér yfir pollinn og fara til einhverra Norðurlandanna. Áður var þetta algengast hvað varðaði nám, sérfræðinám, sem Íslendingar sóttu helst til Norðurlandanna, en nú á þetta við um alla þætti.

Samfara þessu er því mikilvægara að við innan Norðurlandanna stöndum saman um að tryggja réttindi fólks sem flytur á milli landa og reynum að útrýma þeim hindrunum sem þegar eru til staðar og reyna eftir fremsta megni að búa ekki til nýjar hindranir á hinum ýmsu sviðum. Það sem getur verið snúið fyrir ungt og fullfrískt fólk getur verið nær óyfirstíganlegt fyrir þá sem eldri eru og hvað þá ef einstaklingar eiga við fötlun eða veikindi að stríða. Því er það svo mikilvægt að fyllsta réttlætis sé gætt hvað varðar réttindi fólks með fötlun eða sem þarf að njóta réttinda frá almannatryggingum og tryggt að fólk geti flutt á milli án þess að réttindi þeirra skerðist eða afkomu þeirra sé ógnað.

Ég vil þakka Öryrkjabandalaginu sérstaklega fyrir ötula baráttu fyrir hönd félagsmanna sinna og fyrir að benda ótrautt á allar þær hindranir sem eru til staðar og koma upp vegna mismunandi örorkumats á Norðurlöndunum hjá fólki sem verður fyrir örorku og nýtur örorkulífeyrisgreiðslna eða endurhæfingargreiðslna og flytur á milli landa, og fyrir að benda á hversu mikilvægt sé að ryðja þeim hindrunum úr vegi.

Í norræna fötlunarráðinu á Öryrkjabandalagið fastan sess og hafa fulltrúar þess verið duglegir að benda á raunveruleg dæmi um hvaða hindranir geta komið upp, hindranir sem maður hugsar ekki út í. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, fá að nefna tillögur Öryrkjabandalagsins, leiðir til lausna, inn í þá umræðu sem mun fara í gang, nú þegar þessi nýja skýrsla, sem kom út í gær, er komin fram. Í henni er fjallað um niðurstöður sérfræðinefndar á kortlagningu á öllum þeim hindrunum sem eru ljósar í dag á milli Norðurlandanna. Þær hindranir eiga ekki eingöngu við um lífeyrisþega eða þá sem þurfa greiðslur úr almannatryggingakerfinu, heldur á öllum sviðum. Í skýrslunni er bent á leiðir og ég tel að þessi skýrsla muni verða hér til umræðu. Ég hvet til þess að það verði ekki bara á vegum sérstakrar nefndar um norrænar landamærahindranir, eða á vegum samstarfsráðherranna og ráðherranefndanna, sem fjallað verður um þetta mál. Þessi skýrsla er komin inn til þinganna þannig að við verðum öllsömul, bæði þingin og stjórnsýslan, að taka á þessum málum.

Með leyfi hæstv. forseta vil ég vitna í tillögur að lausnum frá Öryrkjabandalagi Íslands sem það lagði fyrir velferðarnefnd Norðurlandaráðs. Bandalagið leggur í fyrsta lagi til að örorkulífeyrir verði greiddur að fullu til örorkulífeyrisþega í því landi sem viðkomandi er með lögheimili. Tryggingastofnun ríkisins eða sambærilegar stofnanir á Norðurlöndunum deili kostnaði á milli sín eftir ákveðnum reglum sem samið verði um. Þetta fyrirkomulag er sambærilegt og gert er varðandi sjúkrakostnað Norðurlandanna.

Í annarri tillögu segir:

„Á meðan landamærahindranir varðandi greiðslur örorkulífeyris eru enn til staðar er hægt að leysa málið á eftirfarandi hátt:

Þegar sótt er um örorkulífeyri í öðru landi verður Tryggingastofnun ríkisins gert það skylt að aðstoða örorkulífeyrisþega með örorkumat frá TR í gegnum allt umsóknarferlið. Þá verði TR gert að afla og veita upplýsingar um réttindi lífeyrisþega í öðrum norrænum löndum. Ef þess þarf veiti TR aðstoð við að kæra og fylgja málum eftir á meðan beðið er eftir niðurstöðu um örorkumat frá öðru Norðurlandi fái fólk óskertar örorkulífeyrisgreiðslur frá Íslandi þar sem það er með lögheimili. Sama fyrirkomulag eigi að gilda á öllum Norðurlöndunum hvað þetta varðar.“

Í þriðju tillögu segir:

„Öryrkjabandalagið tekur undir mikilvægi þess að komið verði á fót norrænum umboðsmanni um landamærahindranir. Umboðsmaður heyri undir norrænu ráðherranefndina.“

Í fjórða lagi er tillaga Öryrkjabandalagsins:

„Öryrkjabandalagið styður þá tillögu að þegar lagafrumvörp eru lögð fyrir þing hvers Norðurlands fyrir sig að mat fari fram á því hvort möguleg landamærahindrun geti skapast ef frumvarpið verður að lögum.“

Hæstv. forseti. Þetta voru tillögur sem Öryrkjabandalagið lagði fyrir velferðarnefnd Norðurlandaráðs 22. mars síðastliðinn. Ég heyrði hér í umræðunum sem fram hafa farið að vel er tekið undir að minnsta kosti sumar þessara tillagna og það er von mín að þær fari svo saman með þeim tillögum sem fram komu í þeirri skýrslu sem út kom í gær og að sú skýrsla komi þá einnig hingað til þingsins.

Hæstv. forseti. Ég vil þakka þessa umræðu og vona að hún muni leiða okkur til farsælla lausna á þeim hindrunum sem okkur þykir miður að skuli vera uppi, en löggjöf landanna er ólík. Ekki ætlum við, að minnsta kosti ekki enn sem komið er, að steypa öllum Norðurlandaþjóðunum í eitt ríki, þannig að löggjöfin verður áfram mismunandi milli landa, en við þurfum að gæta þess að hún bitni ekki á þegnum okkar.