140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[13:07]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Samstarf Norðurlandaþjóðanna hvílir á traustum grunni, ekki bara stjórnsýslulegum heldur menningarlegum og sögulegum. Það má segja að það samstarf bræðraþjóðanna sem þróast hefur með þeim hætti að til hefur orðið allt að því samþættur innri markaður, með sameiginlegum félagslegum aðstæðum fyrir þá bræður okkar og systur sem minna mega sín, sé fyrirmynd fyrir fjölmargar aðrar þjóðir í veröldinni, hvernig hægt er, án þess að ríki afsali sér fullveldi sínu, að ná mjög djúpu og mikilvægu samstarfi á mjög mörgum sviðum. Undir þessu öllu saman ríkir sameiginlegur skilningur á mannréttindum og, eins og ég sagði hér áðan, hin sameiginlega saga sem gerir það að verkum að þetta er hægt.

Þess vegna er mjög mikilvægt að við höldum áfram því starfi sem unnið hefur verið og sem snýr meðal annars að því að ryðja úr vegi sem mest við getum þeim hindrunum sem eru á því að fólk geti flust á milli Norðurlandanna, starfað þar og búið.

Ég vil gera nokkur atriði að umtalsefni. Í fyrsta lagi vil ég taka undir með þeim hv. þingmönnum sem hafa bent á mikilvægi þess að stofnanakerfi okkar sé þannig virkjað og þannig samstillt að við reynum að koma í veg fyrir að nýjar hindranir myndist, meðal annars vegna innleiðinga ESB-regluverks. Norðurlandaþjóðirnar hafa mismunandi samstarf og samband við ESB og því er ástæða til að vera vel á verði hvað þann þátt málsins varðar.

Ég tel gríðarlega mikilvægt fyrir okkur Íslendinga að við gerum okkur ljósa grein fyrir því að Norðurlöndin eru heimamarkaður okkar. Það er stórt vandamál, og allt að því óyfirstíganlegt fyrir okkur Íslendinga, þó okkur hafi nú fjölgað nokkuð á síðustu árum og áratugum, að heimamarkaður okkar, markaður okkar fyrir vöru og þjónustu, er mjög lítill og gerir það að verkum að erfitt er fyrir íslensk fyrirtæki að þróa vöru sína og þjónustu þannig að hægt sé að koma slíkri vöru inn á hinn stóra alþjóðlega markað.

Vegna þessa samstarfs, vegna hinnar sameiginlegu sögu, vegna hinna sameiginlegu viðmiða, eru Norðurlöndin þegar vel tekst til einhvers konar heimamarkaður fyrir íslensk fyrirtæki. Þess vegna er svo mikilvægt, frú forseti, að við horfum til allra þeirra þátta sem auðvelda íslenskum fyrirtækjum að stunda starfsemi sína á Norðurlöndunum. Það snýr að fjölmörgum þáttum, sérstaklega að skattamálum en líka mögulegu aðgengi að fjármagni — aðgengi og möguleikum íslenskra vísindamanna til að starfa í samstarfi við norræna kollega sína og fyrir íslenska menntamenn til að stunda sitt nám þar sem allt hefur síðan áhrif á möguleika íslenskra fyrirtækja til að starfa á þessum markaði. Þekking á tungumálinu, þekking á hefðum og siðum — allt eru það mikilvægir þættir til þess að hægt sé að tala um að Norðurlöndin séu okkar heimamarkaður.

Ég er í hópi þeirra, frú forseti, sem eru þeirrar skoðunar að efla eigi með ráðum og dáð tungumálakennslu í íslenskum grunnskólum og framhaldsskólum. Ég er þeirrar skoðunar að við eigum að halda áfram að kenna danska tungu, það sé nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að hafa sæmilega á okkar valdi að minnsta kosti eitt tungumál Norðurlandanna, það sé eðlilegt að það sé danska sökum þeirra sögulegu tenginga sem eru á milli Íslands og Danmerkur. Tungumálið og menningin eru þættir sem skipta miklu máli þegar kemur að þeirri spurningu hvort í raun og veru sé um að ræða heimamarkað fyrir íslensk fyrirtæki.

Rafræn verslun, þ.e. að geta markaðssett og selt vörur rafrænt, er gríðarlega mikilvægt hagsmunamál fyrir okkur Íslendinga sökum legu landsins. Á það hefur verið bent í yfirliti yfir stjórnsýsluhindranir, sem við þingmenn höfum fengið sent, að þar eru ýmis atriði sem hægt er, og nauðsynlegt reyndar, að skoða til að auðvelda slíka verslun. Eftir að ég fór yfir yfirlitið yfir stjórnsýsluhindranirnar sé ég að það er mjög nauðsynlegt að gera allt sem í okkar valdi stendur til að hrinda úr vegi öllum þeim hindrunum sem eru á því að fólk geti flutt á milli landa og notið félagslegrar aðstoðar. En ég tel ekki síður mikilvægt það sem ég hef verið að segja hér, þ.e. að horfa ekki bara á þetta út frá því sjónarhorninu heldur líka út frá sjónarhorni fyrirtækjanna og möguleikum þeirra.

Mér finnst svolítið vanta upp á það að í því yfirliti sem við erum með sé nægjanlega vel gert grein fyrir þeim atriðum sem snúa að viðskiptaþætti málsins. Slík atriði eru, verð ég að segja, afgreidd frekar hratt og í stuttri umfjöllun, en þar tel ég að okkar stóra tækifæri sé. Þegar menn horfa til þeirra viðskipta sem við Íslendingar eigum við Norðurlöndin og þeirra viðskipta sem Norðurlöndin eiga sín á milli, má glöggt sjá hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir öll Norðurlöndin að þau viðskipti gangi sem best fyrir sig. Enn og aftur, frú forseti, eigum við Íslendingar sennilega meira undir en nokkrar aðrar þjóðir.

Það rifjast upp fyrir mér að ekki fyrir svo löngu kom einmitt til okkar sem erum starfandi á vettvangi Norðurlandaráðs skeyti frá ungliðahreyfingum þeirra flokka sem eru á Norðurlandaráðsþingi æskunnar þar sem því var beint til okkar að skoða möguleika á að auðvelda samskipti á milli þessara ungmenna vegna þess að það voru vandamál varðandi tungumálið. Það er sem sagt goðsögn að allir Norðurlandabúar skilji hver annan nema Íslendingar og Finnar. Það er rétt, sem komið hefur fram hjá sumum hv. þingmönnum, að það eru vandamál fyrir marga af þeim stjórnmálamönnum sem starfa saman á norræna þinginu, ekki bara íslensku og finnsku, heldur líka fyrir þá norsku, sænsku og dönsku, að skilja hver annan nægilega vel. Það undirstrikar mikilvægi þess að við herðum á í tungumálakennslunni til að viðhalda og dýpka samstarf á vettvangi Norðurlandanna.

Ég vil þó sérstaklega vekja athygli á einu atriði í því yfirliti yfir stjórnsýsluhindrun sem við fengum, sem ég verð að segja eins og er að kom mér nokkuð á óvart og ég er eiginlega svolítið hissa á. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Viðurkenning ökuskírteina frá Færeyjum. Færeysk ökuskírteini eru viðurkennd í Danmörku og í Noregi, en ekki annars staðar á Norðurlöndunum.“

Þetta fellur undir málaflokkinn löggjafarsamstarf í borgara- og neytendamálum. Ég verð að segja eins og er að þetta kemur mér nokkuð á óvart. Ég hafði ekki áttað mig á því að ökuskírteini gefin út í Færeyjum séu einungis viðurkennd í Danmörku og í Noregi. Þetta held ég að sé nú til umhugsunar fyrir íslensk stjórnvöld hvort ekki megi skoða það, því að ég hef grunsemdir um að ef maður lærir að keyra bíl í Færeyjum þá ætti það að duga til að keyra hér á Íslandi. Ég lærði að keyra bíl vestur á fjörðum. Ekki var gerð nein sérstök athugasemd við það af hálfu yfirvalda að maður tæki þar bílpróf og keyrði svo í Reykjavík. Ég held að aðstæður í Færeyjum séu þannig að það sé alveg hægt að treysta því að þeir sem læra þar á bíl geti keyrt hér á Íslandi í það minnsta. Ég ætla ekkert að fullyrða neitt um Svíþjóð og Finnland, en úr því Norðmennirnir viðurkenna þetta sé ég enga ástæðu fyrir okkur Íslendinga til að viðurkenna ekki færeysk ökuskírteini.