140. löggjafarþing — 86. fundur,  20. apr. 2012.

stjórnsýsluhindranir á Norðurlöndum, munnleg skýrsla ráðherra norrænna samstarfsmála.

[13:19]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um samstarf Norðurlandanna. Ég er mjög hlynntur þeirri nálgun sem Norðurlöndin hafa verið að taka upp sameiginlega varðandi einmitt þennan þátt málsins, þ.e. að hnattvæðingin kallar á aukið samstarf Norðurlandanna. Og enn og aftur byggir það samstarf á hinum sameiginlega menningarlega og sögulega grunni og hinum sameiginlegu gildum sem við búum að, sérstaklega hvað varðar mannréttindamál sem gerir það að verkum að slíkt samstarf er merkingarbært, það hefur eitthvað að segja. Það er eitthvað sem Norðurlöndin geta sýnt umheiminum og sagt: Fyrir þetta stöndum við og þetta erum við. Ég tel reyndar að það sé ekki aðeins á viðskiptalega vettvanginum, heldur ekki síður þegar kemur að öryggismálum, t.d. starf Norðurlandanna í Eystrasaltsríkjunum, starf Norðurlandanna í Hvíta-Rússlandi, samstarf við Rússland o.s.frv. Allt skiptir þetta miklu máli og eru tækifæri fyrir Norðurlöndin til að dýpka sitt samstarf á þessum vettvangi.

Hvað varðar íslensk fyrirtæki, já, ég get tekið undir það, frú forseti, með hv. þingmanni að það er ástæða til að velta því fyrir sér hvort íslensk fyrirtæki séu að nýta sér nægilega vel þá möguleika sem eru á Norðurlöndunum. Það má vissulega segja að að minnsta kosti í umræðunni hafi áhersla manna á önnur markaðssvæði verið meira áberandi. Að sjálfsögðu eru gríðarleg tækifæri í ýmsum nýmarkaðsríkjum, m.a. í Asíu og Suður-Ameríku, en þessi stóri og mikli markaður, tæplega 25 milljóna manna markaður, á svæði þar sem við höfum mikla sögulega og menningarlega tengingu, sem er svæði sem ég fullyrði að íslensk fyrirtæki eigi að geta horft á sem þeirra heimamarkað og þar af leiðandi síðan í framhaldinu möguleika á að fara með sína vöru og þjónustu út í hinn stóra heim. Ég held að það sé alveg ágætisábending hjá (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra að íslensk fyrirtæki megi vel huga að þessu í ríkari mæli en gert hefur verið.